Við höfum öll heyrt að reglubundin hreyfing er að öllum líkindum eitt öflugasta meðal og meðferðarúrræði sem við höfum þegar kemur að því að viðhalda góðri heilsu og líkamlegri virkni út lífið. Hvers vegna kjósum við þá svona oft að setja hreyfingu EKKI Í FORGANG?
Gæti verið að þú sért undir miklu álagi í vinnu eða ert ekki með mataræði eða svefn í góðu jafnvægi?
Vissulega krefst það tíma, vilja og orku í að finna út hvað hentar okkur persónulega best, því er gott að gefa sér tíma til að skoða alla þessa þætti þegar við ætlum að koma hreyfingu inn í okkar daglega líf. Um leið og við gefum okkur tíma til þess að koma hreyfingu inn í daglegt líf þá hefur það snjóboltaáhrif á alla þætti heilsunnar. Við förum ósjálfrátt að sofa betur, borða betur og erum færari um að stjórna álagi og streitu með framleiðslu góðra hormóna sem myndast þegar við byrjum að hreyfa okkur.
Það hefur reynst mér og mínum skjólstæðingum best að setjast niður með blað og penna og hreinlega spyrja sig spurninga og svara þeim samviskulega. Þú gætir byrjað á því að skoða hvers vegna þú sért ekki að setja hreyfingu og/eða æfingar í forgang?
Hvað gæti verið besti tíminn til að stunda hreyfingu?
Hvaða daga ætla ég að setja hreyfinguna inn í dagskrána mína og hversu lengi ætla ég að hreyfa mig?
Hvenær ætla ég að byrja? Hvað myndi það gera fyrir mig þegar ég byrja að hreyfa mig?
Ef þetta virkar ekki og þú ert enn á þeim stað að trúa því að þú hafir ekki tíma né getu til þess að hreyfa þig, reyndu þá að tengja hreyfinguna stærri ávinningi. T.d þú veist að reglubundin hreyfing minnkar líkur okkar á hjartaáfalli, sykursýki, krabbameini, þunglyndi og svo mætti lengi telja.
Þetta eru allt spurningar sem fá heilann þinn til að hjálpa þér að byrja að setja reglubundna hreyfingu inn í þitt daglega líf, því að sjálfsögðu viljum við vera orkumeiri yfir daginn og lifa góðu lífi ekki satt?
Að hafa ekki tíma er AFSÖKUN, já afsökun sem þú ert kannski búinn að sannfæra sjálfa þig um, en trúðu mér það hafa allir hafa tíma. Þú gætir vaknað fyrr, notað hádegið, farið strax eftir vinnu eða jafnvel á kvöldin í staðinn fyrir að henda þér upp í sófa að horfa á Landann, segi svona.
Ég skora á þig að koma hreyfingu inn í þitt daglega líf strax í dag, þú græðir bara á því til lengri tíma litið, lofa því.
Sjáumst á hreyfingu, kveðja Kolla Bjöss í Sporthöllinni.