Hátt í 250 manns mættu til að fagna þegar fyrstu skóflustungur að nýju hjúkrunarheimili á Höfn voru teknar.
Heilbrigðisráðherra, elstu íbúar á Skjólgarði og elstu börn á leikskólanum Sjónarhóli tóku saman fyrstu skóflustungurnar fyrir stærri Skjólgarði við hátíðlega athöfn á mánudaginn. Elstu konurnar í hópnum eru 99 ára.
Að lokinni athöfninni var boðið til samsætis í Ekru, sal félagsstarfs aldraðra þar sem börn frá Tónskóla A- Skaft. léku á hljóðfæri. Seinna um daginn var einnig samsæti á Skjólgarði þar sem gestum var boðið til að fagna með íbúum.
Verktakafyrirtækið Húsheild ehf. mun byggja nýja hjúkrunarheimilið. Skrifað var undir samninga við verktakann 22. júlí. sl. Samkvæmt upplýsingum frá verktaka mun hann hefja framkvæmdir á næstu dögum og áætlað er að fyrstu íbúar í nýrri byggingu muni flytja inn í janúar 2024.
Þetta mál hefur verið baráttumál lengi hér í Hornafirði og hafa margir lagt hönd á plóg í baráttunni fyrir auknum lífsgæðum okkar eldri íbúa.
Til hamingju Hornfirðingar.