Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað á Heppunni að undanförnu en þar er verið að breyta gamla sláturhúsinu í fjölþætt atvinnuhúsnæði sem óðum er að taka á sig mynd.
Þau sem standa að framkvæmdunum eru þau sömu sem eiga og reka Mjólkurstöðina þ.e. þau Elínborg Ólafsdóttir, Elvar Örn Unnsteinsson, Íris Dóra Unnsteinsdóttir og Hilmar Stefánsson.
Framkvæmdir hófust í maí 2021 og hafa því staðið yfir í rúmt ár. Til að byrja með var aðallega um að ræða niðurrif á tækjum og búnaði sem tilheyrði fyrri rekstri en að því loknu tók við umbreytingafasinn og uppbyggingin við. Okkur lék forvitni á að vita hvaða hlutverki húsnæðið eigi að gegna að uppbyggingu lokinni.
Að sögn eigenda þá er hugmyndin að gera veitingastað sem snýr til vestur út á Heppuna og til suður, sem er með útsýni yfir höfnina. Búið er að saga út fyrir flestum gluggum og hurðum sem eiga að vera á húsinu og við það hafi opnast gríðarlega skemmtilegt útsýni yfir höfnina og útsýnið úr veitingastaðnum er frábært. Við veitingastaðinn verður jafnframt gerður skemmtilegur bryggjupallur vestan við húsið sem tengir húsnæðið við hafnarstemninguna. Inn af veitingarstaðnum verður svo brugghús og verður hægt að horfa inn í það úr veitingastaðnum. Þar er ráðgert að brugga eðal hornfirskan bjór, en handverksbjórmenningin er að verða mjög sterk og skemmtileg um allt land. Ekki skemmir fyrir nýja frumvarpið sem samþykkt á vordögum þar sem brugghúsum er heimilað að selja eigin vöru beint út frá þeim. Gert er ráð fyrir því að inni á veitingastaðnum verði bjórbúð þar sem seldar verða framleiðsluvörur frá brugghúsinu. Þar geta heimamenn komið og verslað ferskan og góðan bjór úr eðal hornfirsku vatni. Búið er að leggja grunn að samkomulagi við brugghús á höfuðborgarsvæðinu um þeirra aðkomu að bruggrekstrinum til að hraða uppbyggingu og gæðum bjórsins. Áformað er að veitingahúsið opni vorið 2023 og það sama gildi um brugghúsið, að framleiðsla hefjist í ársbyrjun 2023 og sala hefjist vorið 2023.
Auk brugghússins og veitingastaðarins verða þrjár íbúðir í Hepputorgi og eru tvær þeirra nánast tilbúnar og einnig eru níu útleigubil fyrir ýmisskonar starfsemi. Fyrir þá sem þekkja til, þá eru íbúðinar þar sem kaffistofurnar og skrifstofurnar voru áður. Frábært útsýni er úr báðum íbúðum en mjög ólíkt. Íbúðin sem snýr til suðurs er með útsýni yfir löndunarsvæðið og höfnina. Þar hafa starfsmenn Hepputorgs löngum horft yfir svæðið til að sjá hvernig afli smábátanna var þann daginn og má ætla að erlendum ferðamönnum sem þar dvelja þyki mikið til koma. Íbúðirnar sem snúa til norðurs hafa aftur á móti gott útsýni á jöklana enda stendur Heppan nokkuð hátt á bæjarlandinu. Önnur úleigubil eru sem fyrr segir níu og er ólík að stærð og gerð. Nú þegar hafa nokkrir aðilar lýst yfir áhuga á að leigja þessi bil og er það markmið eigenda að götuhæðin ( miðhæðin ) verði leigð til verslana, skapandi greina eða áhugaverðrar starfsemi sem styrki og móti það skemmtilega andrúmsloft sem eigendur sjá fyrir sér að Hepputorgið skapi. Eigendur sjá fyrir sér að torgsvæðið vestan við veitingastaðinn geti verið líflegt svæði með uppákomum. Stígurinn sem liggur á Heppunni fram hjá Íshúsinu framlengist og nær alla leið fram með götunni fyrir framan Hepputorgið, en þrengt verði að henni með blómakerjum til að ná þessari skemmtilegu götuásýnd.
Heppan geti því myndað miðsvæði fyrir umferð gangandi fólks á svæðið, bæði ferðamenn og heimamenn. Hafnarsvæðin víðast hvar í heiminum eru hvað mesta aðdráttarafl í bæjum og borgum og því væri gaman að útbúa svæðið með þeim hætti að að miðsvæði Hafnar væri á Heppunni og svæðinu í kring, en það státar af afburða veitingahúsum sem eru ekki hvað síst það sem ferðamenn sækja til Hafnar.
Fyrir áhugasama, þá má sjá frekari upplýsingar á heimasíðunni www.heppa.is en þar má sjá útlit hæðanna og þeirra útleigubila sem í boði eru.