Íbúakosningar um samþykkt aðal- og deiliskipulag í Innbæ

0
428

Sveitarfélagið Hornafjörður hefur verið að undirbúa kosningar í samræmi við 108 gr. sveitarstjórnarlaga frá því í september 2021 í kjölfar þess að íbúar í sveitarfélaginu óskuðu eftir heimild til að safna undirskriftalista um að samþykkt bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar um breytingar á aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag í Innbæ yrði sett í íbúakosningu. Bæjarráð samþykkti erindið um fyrirhugaða undirskriftasöfnun á fundi sínum þann 29. júní 2021 í umboði bæjarstjórnar.
Undirskriftasöfnunin vegna breytingar á aðal- og deiliskipulagi í innbæ, fór fram rafrænt hjá Þjóðskrá og einnig á blöðum og hélt Þjóðskrá utan um talningu undirskrifta. Á kjörskrá voru 1.590 einstaklingar, fjöldi þeirra sem skráðu nafn sitt á undirskriftalistann var 353 eða 22,2 %. Skv. samþykktum sveitarfélagsins skal bæjarstjórn verða við ósk um almenna atkvæðagreiðslu ef 20% þeirra sem eiga kosningarétt óska þess. Hópurinn sem stóð fyrir undirskriftasöfnuninni sendi í kjölfarið inn erindi þar sem óskað var eftir að íbúakosningin færi fram samtímis kosningum til sveitastjórna og að á kjörseðli yrðu kjósandanum gefnir eftirtaldir tveir valkostir:

  • Nýtt deiliskipulag í innbæ samkvæmt auglýsingu frá 27.5.2021 haldi gildi sínu.
  • Nýtt deiliskipulag í innbæ samkvæmt auglýsingu frá 27.5.2021 skal falla úr gildi og skipan mála færð í fyrra horf.

Þegar sveitarstjórn hefur ákveðið að halda íbúakosningu skv. 1. mgr. 107. gr. sveitarstjórnalaga er henni heimilt að óska eftir því við ráðherra að kosningin fari eingöngu fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna kosningarinnar verði rafræn. Bæjarstjórn fannst það spennandi kostur og var ákveðið að hefja undirbúning að framkvæmd rafrænna kosninga. Samkvæmt reglugerð nr. 966/2018 um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna kosninga þarf sveitarstjórn að óska eftir samþykki ráðherra fyrir framkvæmd rafrænnar íbúakosningar. Var því tekin ákvörðun um að senda inn beiðni til ráðherra um heimild til að framkvæma rafræna íbúakosningu.
Eftir að erindið var sent fór af stað undirbúningur starfsmanna sveitarfélagsins, Þjóðskrár Íslands og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Ég fann strax fyrir miklum velvilja og áhuga hjá ráðuneytinu og var mikið kapp á það lagt að sveitarfélagið gæti framkvæmt íbúakosninguna rafrænt. Þjóðskrá Íslands ber að tryggja að nothæft kosningarkerfi sé til staðar og það þarf að uppfylla öryggisviðmið. Fljótlega var farið að vinna með kosningakerfið Valmund sem er í eigu Advania. Til að tryggja að kerfið uppfyllti öryggisviðmið þurfti að framkvæma á því öryggisúttekt. Sú úttekt lá ekki fyrir fyrr en í lok febrúar 2022 og niðurstaða hennar kallaði á lagfæringar á kosningakerfinu. Á sama tíma unnu starfsmenn að undirbúningi staðbundinna kosninga og var stefnan tekin á að kosið yrði í byrjun janúar 2022. Þá bættust við önnur flækjustig og dómsmálaráðuneytið var dregið að borðinu, ný kosningalög tóku gildi um áramót sem breytti undirbúningi töluvert.
Staðan í dag er enn sú að ekki er hægt að nýta rafrænt kosningakerfi, lagafrumvarp um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 hefur verið lagt fram á Alþingi þar sem helsta markmiðið er að einfalda framkvæmd íbúakosninga ásamt því að stofnuð var ráðgjafanefnd um rafrænar íbúakosningar sveitastjórna þann 28. janúar 2022. Nefndin skal vinna að tillögum um fyrirkomulag og umgjörð rafrænna kosninga í nánu samráði við ráðuneytið og Þjóðskrá Íslands. Ekki hefur verið haldin íbúakosning hjá sveitarfélagi á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnalaga síðan árið 2018.
Þar sem rafræn íbúakosning var ekki framkvæmanleg tók bæjarstjórn ákvörðun um að íbúakosning færi fram samhliða sveitarstjórnakosningum 14. maí n.k. Starfsmenn leituðu til Félagsvísindastofnunar varðandi ráðgjöf um orðalag spurningar, sendu tilkynningu á dómsmálaráðuneytið, innviðaráðuneytið og Þjóðskrár Íslands. Dómsmálaráðuneytið skipuleggur utankjörfundaratkvæðagreiðslu sem skv. upplýsingum sýslumanns færi fram með hefðbundnum hætti. Þegar utankjörfundaratkvæðagreiðslan hófst kom í ljós að spurningin sem var lögð fram er gölluð þegar kjósendur fá auðan kjörseðil og stimpla svarið með Já eða Nei en spurningin var þessi:

Vilt þú að þetta nýja aðal- og deiliskipulag haldi gildi sínu með þeim breytingum sem því fylgja, eða vilt þú að það falli úr gildi og þar með verði skipulag óbreytt á svæðinu?

  • Ég vil að nýtt aðal- og deiliskipulag haldi gildi sínu.
  • Ég vil að nýtt aðal- og deiliskipulag falli úr gildi.


Þegar þetta lá fyrir hafði bæjarráð áhuga á að leita leiða til þess að framkvæma kosninguna og óskaði eftir fundi með þeim íbúum sem stóðu fyrir undirskriftasöfnuninni. Niðurstaða kosninga 14. maí hefði gefið vísbendingu um vilja íbúa en það væri í höndum úrskurðarnefndar kosningamála að skera úr um lögmæti kosninganna að þeim afloknum. Þess má geta að niðurstaða íbúakosningarinnar verður ráðgefandi skv. ákvörðun bæjarstjórnar. Ekki varð af þessum fundi og því tók bæjarráð ákvörðun um að fresta íbúakosningunni þann 29. apríl s.l. en sveitarfélaginu ber að framkvæma kosningu fyrir 24. ágúst n.k.
Tilefni kosninganna var aðal- og deiliskipulagsbreyting á Höfn þar sem markmiðið var að fjölga íbúðalóðum um 6 talsins með því að bæta við lóðum í gróna byggð. Slíkt er alltaf umdeilt en á sama tíma er mikill lóða- og húsnæðisskortur en aðeins þrjár lóðir eru lausar til úthlutunar á Höfn í dag. Undirbúningur kosninganna hefur nú tekið 8 mánuði til viðbótar við þann tíma sem skipulagsvinnan tók. Sveitarfélagið hefur útbúið kynningarefni í tengslum við íbúakosninguna og má skoða kynninguna á heimasíðu sveitarfélagsins.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar