Sveitarfélagið samþykkti stefnumótun fyrir sveitarfélagið í nóvember 2021. Í stefnumótuninni er lögð áhersla á innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmiðin eru 17 ásamt 169 undirmarkmiðum. Við stefnumótunarvinnuna var framkvæmd áhættu og mikilvægisgreining fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð og í framhaldi lögð áhersla á heimsmarkmið 11 – sjálfbærar borgir og samfélög en jafnframt eru heimsmarkmiðin tengd við fjóra megin áhersluþætti stefnunnar sem eru:
- Að vera leiðandi í umhverfis og loftlagsmálum
- Byggja upp fjölskylduvænt samfélag
- Að hér verði blómlegt atvinnulíf
- Gagnsæ og aðgengileg stjórnsýsla
Stefnuna má nálgast á heimsíðu sveitarfélagsins og þar má kynna sér betur helstu aðgerðir sem lögð verður áhersla á.
Hluti af innleiðingu stefnunnar er að kynna heimsmarkmiðin fyrir íbúum. Fréttamiðlun á vegum sveitarfélagsins verður hér eftir tengd heimsmarkmiðunum. Jafnframt hefur verið sett fram áætlun um að efla upplýsingagjöf til íbúa um starfsemi sveitarfélagsins og helstu verkefni sem unnið er að.
Heimsmarkmiðin ríma mjög vel við barnvænt sveitarfélag en það verkefni er í góðum farvegi. Sveitarfélagið er einnig heilsueflandi sveitarfélag og skólar sveitarfélagsins eru grænfána skólar. Það rýmir vel við umhverfis- og loftslagsstefnu sem er nú á lokametrunum. Þá er verið að kortleggja losun kolefnis í sveitarfélaginu og greina úrgangsferla sorps með það að markmiði að finna leiðir til að nýta betur úrgang í anda hringrásarhagkerfis. Þetta eru brot af þeim verkefnum sem nú eru í vinnslu.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri