Fugladagbókin 2022

0
450

Fuglaskoðun nýtur mikilla vinsælda á Íslandi, ekki síður en erlendis, og fer vaxandi ef eitthvað er. Fjölmargir gefa fuglum, einkum yfir vetrartímann, og svo eru aðrir sem láta sér nægja að fylgjast með þeim og gleðjast yfir því sem fyrir augu ber, jafnvel í gegnum myndavélalinsur. Á Facebook eru a.m.k. þrír stórir hópar, sem hafa þetta sem áhugamál, og telja þeir samtals um 30 þúsund manns. Það er ekki lítið.
Á dögunum var að koma út bók með þetta fólk í huga. Sú nefnist Fuglar á Íslandi og árstíðirnar fjórar: Fugladagbókin 2022 og er eftir Sigurð Ægisson. Hugmyndina fékk hann einmitt á Höfn í Hornafirði þegar hann og Mikael, sonur hans, voru að eltast við grænfinku fyrir nokkrum árum, en þá sá hann hliðstæða bók, sænska, hjá húsráðanda, þar sem þeir feðgar höfðu fengið inni og voru að mynda út um glugga. Reyndar eru svona bækur líka til í öðrum löndum víða, m.a. í hinum enskumælandi heimi, en Sigurður byggir sína þó upp á aðeins annan hátt, þótt tilgangurinn sé nokkurn veginn sá sami.
Í aðfaraorðum bókarinnar segir, að það sé von höfundar og útgefanda að hún megi þykja upplýsandi og gefandi, auka skynjun fólks á íslenskri náttúru og ekki síður opna augu þess fyrir tengslum hennar við umheiminn.
Gert er ráð fyrir að bókin komi út árlega héðan í frá og þá með nýjum textum í hvert sinn.
Bókin er í litlu og handhægu broti og það er Bókaútgáfan Hólar ehf. sem gefur hana út.

Landsvala- Hirundo rustica
Landsvalan er af ættbálki spörfugla og af ætt svala. Í Hirundo-ættkvíslinni eru, auk hennar, 13 tegundir. Landsvalan er þeirra útbreiddust og liðflest. Þrátt fyrir nafnið á hún ekkert skylt við íslensku pípunefina, sjósvölu og stormsvölu.
Fuglar nafntegundarinnar eru svarbláir að ofan og málmgljáa slær á þá um koll og herðar. Á enni og í kverk eru þeir dumbrauðir. Á neðanverðum hálsi er svarblátt band. Kviður og bringa eru ljósgul. Stélið er langt og djúpklofið og vængir hvassyddir. Nefið er stutt en ginið
mjög vítt. Fætur eru litlir, dökkmóleitir. Lithimna augna er dökkbrún og yfir í svart.
Í Evrópu er landsvalan vorboði, eins og lóan er hér. Hún er grannvaxin og rennileg og flýgur mjög hratt og léttilega. Röddin er síendurtekið ískur. Bæði kyn vinna að gerð hreiðursins, sem er úr leir og grasstráum, en klætt mýkra efni að innanverðu, gjarnan fjöðrum eða mosa. Það er oftast límt í eða á byggingar af ýmsu tagi, í króka og á syllur. Í eina tíð mun nær eingöngu hafa verið notast við hella í þessum tilgangi. Eggin geta verið 2–7, en eru oftast 3–6. Útungun tekur 13–16 daga og sér kvenfuglinn um þá hlið mála. Þeir verða fleygir á 18–27 dögum, en eru samt mataðir alllengi eftir það.
Enda þótt landsvölur teljist vera flækingar á Íslandi, má segja að þær séu með algengari gestum sem landið heimsækja. Fram til áramóta 2013/2014 er vitað um 2,647 hér.
Á Suðausturlandi var landsvalan kölluð sóttarsvala áður fyrr. Átti ýmis óværa að fylgja komu hennar, til dæmis mannslát — einkum ef hún tyllti sér á bæjarhús — og pestir.
Í Japan og Kóreu og víðar er það hins vegar talið gæfumerki ef landsvala gerir sér hreiður í mannabústöðum. Og jafnmikil ógæfa fylgir því að eyðileggja þá smíð. Rauða brjóstlitinn er hún sögð hafa fengið á Golgata forðum daga, þegar hún reyndi að losa þyrna úr enni Jesú. Og fleira er um hana sagt í erlendri þjóðtrú.