Fréttakorn frá Menningarmiðstöð Hornafjarðar

0
549
Ægir Þór ásamt bekkjarfélögum úr 5. bekk

Þann 9. október síðastliðinn var opnuð sýningin Hringfarar í Svavarssafni og hefur hún vakið mikla eftirtekt. Þar sýna listamennirnir Elsa Dóróthea Gísladóttir, Guðjón Ketilsson, Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir og Sólveig Aðalsteinsdóttir. Þau vinna út frá náttúrulegum ferlum, gjarnan með efnivið eða liti úr nærumhverfinu og hversdagslegu samhengi.
Nýlega hittu hringfarar skólabörn Grunnskóla Hornafjarðar og nemendur í Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu í listasmiðjum þar sem unnið var út frá sýningunni. Unnið var úr litarefnum sem finnast í okkar daglega umhverfi. Þátttakendur komu með litarefni að heiman í ýmsu formi t.d. safa, te, saft, seyði af blómum, grænmeti, orkudrykkjum, morgunkorni og fl. Eldri nemendur umbreyttu m.a. steinvölum sem þeir komu með í vatnsliti, settu upp í fjölbreytta litapallettu sem þeir notuðu í myndverk sín.
Smiðjurnar vöktu mikla lukku, allir þátttakendur voru einstaklega áhugasamir og ánægðir með að fá innsýn í heim listamannanna. Listamennirnir voru í sjöunda himni með undirtektirnar og alla aðstoðina við að koma þessu samstarfsverkefni í framkvæmd og við viljum nota tækifærið og þakka þeim kærlega fyrir metnaðarfullt starf í þágu unga fólksins okkar.
Rithöfundakvöld Menningar­miðstöðvarinnar var haldið á Hafinu með pomp og prakt 24. nóvember og að þessu sinni kynntu rithöfundarnir Kristín Ómarsdóttir, Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, Eiríkur Örn Norðdahl, Haukur Ingvarsson og Sölvi Björn Sigurðsson nýútkomnar bækur þeirra.
Á bókasafninu má sjá hluta af sýningu sem nú stendur yfir í MUUR gallerí en sýningin er samstarfsverkefni MUUR gallerí og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og er verkið sýnt í tveimur útgáfum á hverjum stað. Sýningin [ ] var opnuð 26. nóvember í Nýheimum og 27. nóvember í sýningarrými MUUR sem er starfrækt á heimili Lindar & Tim´s í Hagatúni 7. Þar sýna listamennirnir Vikram Pradhan og Halldór Eldjárn en sýningarstjóri er Björk Hrafnsdóttir. Vikram Pradhan er fæddur á Indlandi en býr og starfar nú á Íslandi. Hann vinnur með mismunandi miðla á mörkum myndlistar og hönnunar til að skapa verk sem snúa að ó-eðlisfræði (heimspekigrein sem fjallar um hið ímyndaða svið ásamt frumspeki) og sálfræði. Rannsóknir og tilraunir eru mikilvægir þættir í listsköpun Vikrams. Halldór Eldjárn er tónlistarmaður, tölvunarfræðingur og listamaður sem býr og starfar í Reykjavík. Í list sinni er hann stöðugt í leit að nýjum tengslum tækni og listar. Halldór hefur unnið með listamönnum á borð við Björk og Ólaf Arnalds að tónlist og raf-hljóðfærum sem miða að því að blanda tölvugerðri tónlist við verk listamannanna.
Menningarmiðstöðin hefur unnið að gerð nýrra upplýsinga­spjalda og fengið til liðs við sig Náttúrustofu Suðausturlands og Vöruhúsið við verkefnið. Á spjöldunum eru helstu örnefni í okkar umhverfi og afrit af spjöldunum liggja nú frammi í bókasafninu og gefst gestum tækifæri til að koma og skoða spjöldin, bæta inn örnefnum og/eða koma með athugasemdir ef einhverjar eru. Við hvetjum sem flesta til að koma við í bókasafninu og leggja okkur lið í þessu verkefni.
Nú er aðventan gengin í garð og fyrstu helgi í aðventu voru ljósin kveikt á jólatré sveitarfélagsins en vegna 50 manna samkomu takmarkanna var ekki hægt að halda hefðbundna aðventuhátíð. Ægir Þór Sævarsson tendraði ljósin og hópur bekkjarfélaga hans í 5. bekk Grunnskóla Hornafjarðar dönsuðu við tréð til að vekja athygli á Duchenne, sjaldgæfum sjúkdómi sem Ægir Þór glímir hetjulega við.
Covid veiran truflar okkur ennþá og við viljum gera allt sem við getum til að jólahátíðin verði sem best fyrir alla og að við getum öll verið með fjölskyldum okkar og ástvinum um jólin.
Menningarmiðstöð Hornafjarðar mun standa fyrir skipulagðri dagskrá á aðventunni og bjóða upp á sögustundir í bókasafninu á laugardögum ásamt jólaföndri, fyrirlestur um jólasveina og jólavætti, kakó við jólatréð og sitthvað fleira. Dagskráin verður auglýst nánar á Facebook síðu Menningarmiðstöðvarinnar. Við eigum einnig von á að jólasveinar, lúðrasveitin og kvennakórinn verði á sveimi um bæinn og sáldri yfir okkur jólagleði á sinn einstaka hátt.

Með jólakveðju,
starfsfólk Menningarmiðstöðvarinnar.