Vilhjálmur Magnússon forstöðumaður Vöruhúss tók við Hvatningaverðlaunum íslensku menntaverðlaunanna við hátíðlega athöfn á Bessastöðum ásamt nemanda sínum Sigursteini Traustasyni.
Vilhjálmur segir það mikinn heiður fyrir Vöruhúsið og starfið í Fab Lab smiðju Hornafjarðar að taka við Hvatningarverðlaunum Íslensku menntaverðlaunanna 2021. Vöruhúsið er nýsköpunar, list- og verkgreinahús okkar Hornfirðinga og hefur verið starfrækt síðan 2012. Starfsemin og húsið sjálft hefur þróast töluvert síðan byrjað var á verkefninu og í dag er Vöruhúsið búið að skapa sér ákveðna sérstöðu á landsvísu. Þessi sérstaða er sú að styðja við formlegt og óformlegt nám í skapandi greinum,
vera vettvangur þverfaglegrar samvinnu, þar sem einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki geta nýtt aðstöðu, sótt þekkingu og treyst tengslanet sitt.
Vöruhúsið vinnur náið með ýmsum stofnunum í fjölbreyttum verkefnum hvort sem það eru styrktarverkefni eða önnur verkefni sem falla undir nýsköpun eða aukið framboð á tæknimenntun á Íslandi. Þar má nefna stofnanir eða samstarfsnet eins og Fab Lab Ísland, FAS, Grunnskóla Hornafjarðar, Nýheima Þekkingarsetur, Háskóla Íslands, Háskólafélag Suðurlands, SASS og fleiri stofnanir.
Það má ekki gleyma því hversu mikla trú og traust Sveitarfélagið Hornafjörður hefur sýnt Vöruhúsinu. Það er ekki gefins að reka slíka aðstöðu og hvað þá að ráðast í þær endurbætur á húsnæðinu sem nýlega lauk. Þessi verðlaun eru því einnig sveitarfélagsins og þeirra sem hafa veitt verkefninu framgöngu. Sérstaklega vil ég nefna þátt fræðslustjórans Ragnhildar Jónsdóttur sem lét nýlega af störfum. Ragga, eins og hún er kölluð, hefur staðið eins og klettur með verkefninu frá upphafi og þökkum við henni fyrir vel unnin störf.
Að lokum viljum við þakka Samtökum áhugafólks um skólaþróun, að hafa tekið eftir því sem við erum að gera og veita okkur þessi virðulegu verðlaun. Einnig viljum við þakka Guðna Th. forseta fyrir gott heimboð og hlýjar móttökur í okkar garð á sjálfan afhendingardaginn.
Hornfirðingar við getum verið stolt af Vöruhúsinu og minni ég á að þangað eru allir velkomnir. Verum jákvæð og skapandi!
Fyrir hönd Vöruhússins, Vilhjálmur Magnússon.