Lónsöræfi

0
1597

Dagana 1.-3. september fór ég ásamt öllum tíunda bekk í námsferð í Lónsöræfi. Ferðin heppnaðist dýrindis vel, hópurinn þjappaðist mikið saman en það er einn helsti kostur svona ferða, við fengum æðislegt veður alla dagana, sól, logn og hlýtt veður og við skemmtum okkur konunglega.
Ferðin byrjaði á miðvikudagsmorgni þar sem allir mættu upp í skóla og voru tilbúnir í smá jeppaferð ef það er hægt að kalla þetta það. En það voru þau Laufey Guðmundsdóttir, Guðlaugur Jakobsson, Eiríkur Sigurðsson, Reynir Arnarson, Sigurjón Einarsson og Sigurður Guðmundsson sem áttu þann heiður að skutla hópnum inn í Stafafellsfjöll þar sem við stoppuðum svo og löbbuðum um 2 km niður Illakamb og í Múlaskála, þar sem við gistum. Við bárum með okkur allan þann farangur sem var með, ásamt öllum mat fyrir næstu daga en honum var skipt á milli þannig að allir tóku eitthvað. Þegar komið var upp í skála var tekin smá pása, grillað og græjað fyrir gönguna framundan. Kennararnir sem komu með okkur tíunda bekknum voru þau Hulda Björg Sigurðardóttir, Sæmundur Helgason og Þórdís Þórsdóttir og stóðu þau sig líka með prýði að mínu mati.
Til þess að týnast ekki eða eitthvað svoleiðis þurfti einhver að leiða hópinn í göngunum og ferðinni sjálfri. Það var Jón Bragason sem tók að sér það hlutverk, enda hefur hann farið með fleiri, fleiri hópa úr grunnskólanum á Lónsöræfi og þekkir svæðið eins og lófann á sér. Jón sagði okkur alls konar sögur um bæði umhverfið, byggðasögu og búskap í Lónsöræfum, bæði í göngunni sjálfri og líka þegar við stoppuðum í vatns- og nestispásum. Fyrsta daginn var labbað upp á Víðibrekkusker og tók gangan um 6 tíma. Útsýnið var alveg æðislegt og kom mörgum á óvart.
Kvöldin stóðu upp úr fyrir okkur í tíunda bekknum. Við lékum okkur eins og litlir krakkar, sungum með Sæmundi, dönsuðum og sögðum draugasögur, eitthvað sem er í miklu uppáhaldi hjá unglingum, lágum í rúmunum okkar og störðum út í loftið.
Að morgni fimmtudags var vaknað snemma, græjað og gert og síðan var haldið í Leiðartungur og Tröllakróka. Landslagið og útsýnið þar toppuðu jafnvel útsýnið daginn áður fyrir mörgum en það er afar stórbrotið og sérstakt.
Við sáum margt áhugavert og skemmtilegt í báðum göngunum t.d. skordýr, allskonar gróður, bergmyndanir og fleira.
Þar sem að það var ekkert símasamband og enginn gat hangið mikið í símanum, nema jú til að vera í leikjum, þjappaðist hópurinn mikið saman, eins og áður kom fram. Ekkert símasamband eða netsamband er eitthvað sem við erum ekki vön þannig þetta var mikil og góð tilbreyting fyrir hópinn. Enda var líka mjög skemmtilegt að fylgjast með á leiðinni heim aftur hvað allir urðu spenntir þegar loksins kom símasamband í tvær mínútur en datt svo aftur út þegar við vorum enn uppi í Stafafellsfjöllum.
Föstudagurinn fór í að ganga frá, þrífa skálann og pakka niður. Við gengum aftur í bílana og þurftum að bera allt með okkur aftur svo sem rusl og annað. Við vorum svo komin niður á Höfn um hádegis bilið.
Samtals löbbuðum við um 30 km, þetta var krefjandi á tímum en allt þess virði á endanum. Við krakkarnir töluðum oft um þá tilfinningu sem maður fær eftir að klára erfiða æfingu eða göngu eins og þarna. Stolt og gleði ásamt þreytu. Eftir labbið get ég sagt ykkur að margir voru orðnir þreyttir og komnir með blöðrur og hælsæri.
Ferðin var mjög lærdómsrík þannig að ég ákvað að spyrja nemendur í bekknum hvað þau lærðu og nokkur svör voru, t.d. hvernig maður á að vera sjálfbjarga í svona aðstæðum – óbyggðum, hvernig á að pakka fyrir svona ferðir bæði varðandi mat og fatnað, mikið um allskonar gróður og gróðurtegundir, hvernig á að tækla hælsæri og blöðrur, hvað fólk þurfti að labba langar vegalengdir í gamla daga til þess að komast á milli staða og svo einnig mörg ný lög í söngstundunum með Sæmundi kennara.
Að lokum við ég þakka bekkjarfélögum mínum fyrir frábæra ferð, kennurunum og Jóni fyrir samveruna og fræðsluna og öllum þeim sem komu að skipulagningu og skutli í ferðinni. Við erum sérlega heppin að hafa svona stórkostlega og stórbrotna náttúru rétt við bæinn okkar.

Fyrir hönd 10. bekkjar 2021
Emma Ýr Friðriksdóttir