Átt þú rétt á styrk fyrir íþrótta- og/eða tómstundaiðkun barnsins þíns?

0
698
Ásgerður K. Gylfadóttir

Nú er hafið íþrótta- og tómstundastarf hjá börnum og unglingum eftir vægast sagt undarlega haustönn þar sem starfsemin raskaðist töluvert mikið hjá iðkendum. Þar sem nú er verið að ganga frá skráningum í Nora hjá flestum deildum Umf.Sindra vil ég minna á tómstundastyrk sveitarfélagsins en hann er 50.000kr á ári fyrir börn frá 6-18 ára aldurs. Við skráningu er hakað við að viðkomandi vilji nýta styrkinn og dregst hann þá strax frá æfingargjaldinu.
Það er vert að minna á að tómstundastyrkurinn nýtist ekki aðeins við íþróttaiðkun heldur í einnig í annað tómstundastarf ss. nám í tónskólanum og hin ýmsu námskeið sem boðið er uppá fyrir þennan aldurshóp yfir árið í sveitarfélaginu.
Til viðbótar við styrk sveitarfélagsins vil ég einnig minna á sérstakan íþrótta- og tómstundastyrk fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum sem veittur er af félags- og barnamálaráðuneytinu vegna Covid-19 faraldursins.
Hægt er að sækja um styrk fyrir börn sem fædd eru á árunum 2005-2014 og búa á heimili þar sem heildartekjur heimilisins voru að meðaltali lægri en 740.000 kr. á mánuði á tímabilinu mars – júlí 2020. Styrkurinn er 45.000 kr. á hvert barn og um 13.000 börn eiga rétt á styrknum. Sveitarfélögin annast afgreiðslu styrkumsókna eftir að búið er að kanna rétt til styrksins inni á Ísland.is. 
Ljóst er að mörg heimili í sveitarfélaginu hafa glímt við mikið tekjutap á síðustu misserum vegna Covid-19 faraldursins og er þá mikilvægt að vera meðvitaður um og nýta þann stuðning sem bæði sveitarfélög og ríki veita á þessum erfiða tíma.
Svo ég vitni að lokum í félags- og barnamálaráðherra, Ásmund Einar Daðason þá segir hann: „Covid-19 faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á allt íþrótta- og tómstundastarf í landinu. Þegar þrengir að fjárhag fjölskyldna er mikil hætta á að þær dragi úr þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi og það á sérstaklega við um fjölskyldur í neðri hluta tekju­dreifingarinnar. Rannsóknir sýna að íþróttir og frístundir hafa forvarnargildi og því er gríðarlega mikilvægt að við gerum allt sem við getum til að koma í veg fyrir brottfall hjá krökkum í íþróttum og tómstundum vegna faraldursins.”
Áfram Veginn!

Ásgerður K. Gylfadóttir,
Oddviti Framsóknar í Sveitarfélaginu Hornafirði og formaður bæjarráðs