Vatnajökulsþjóðgarður

0
1230
Merking Helsingja á Breiðamerkursandi

Margt hefur drifið á dagana á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs í sumar en sökum þess hve fáir hafa verið á ferðinni hafa landverðir haft tíma til að sinna ýmsum verkefnum sem setið hafa á hakanum. Suðursvæðið gat ráðið jafn margt starfsfólk í sumar og til stóð þrátt fyrir yfirstandandi heimsfaraldur vegna aukaframlags frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Það var einkar ánægjulegt og sá mannskapur nýttist vel til uppbyggingar og viðhalds enda hefur annríki síðustu ára verið slíkt að ekki hefur gefist mikið ráðrúm til slíkra verka.

Skaftafell

Göngustígum viðhaldið

Stærstu verkefni sumarsins í Skaftafelli fólust í að hefta útbreiðslu alaskalúpínu á aurunum framan Skaftafellsjökuls og á Skaftafellsheiði við Skerhól. Verkefnið er langtímaverkefni og miðar að því að slá og reyta lúpínu á sama svæði ár hvert. Í Skaftafelli er göngustígakerfi sem nemur hátt í 100 kílómetrum, en í sumar var ráðist í umfangsmikið viðhald á því. Byggð var um 40 metra löng göngubrú í Vesturheiði og fjöldi drena voru lagfærð og bætt. Landverðir stóðu fyrir lifandi fræðslu í Skaftafelli en í sumar voru þrjár fræðslugöngur á dag og barnastundir um helgar. Mikil aðsókn var í fræðslugöngurnar bæði frá íslenskum og erlendum gestum.

Breiðamerkursandur

Á Jökulsárlóni var lagt nýtt bílastæði í Eystri-Fellsfjöru en það er hluti af framtíðarskipulagi svæðisins. Í sumar var í fyrsta sinn skipulögð fræðsluganga á Jökulsárlóni sem bar heitið Bláa gullið en gangan fjallaði um vatn í mismunandi formi og loftslagsbreytingar. Eins var unnið að gerð göngustíga, þ.á.m. nýrrar gestagötu á vesturbakka Jökulsárlóns. Landverðir suðursvæðis tóku einnig þátt í árlegri Helsingjamerkingu á Breiðamerkursandi í samstarfi við Náttúrustofu Suðausturlands þar sem þrír fuglar voru að auki gps merktir.

Höfn

Á Höfn voru haldnar barnastundir í Gömlubúð alla fimmtudaga í júlí og var það í fyrsta sinn sem boðið var upp á slíkt. Í hverri viku var nýtt þema þar sem áhersla var t.d. lögð á fugla, jökla eða blóm og heppnaðist vel til. Fræðslugöngur við Heinabergsjökul hófust að nýju eftir nokkurra ára hlé en tilefnið var nýr fræðslustígur við Heinabergslón. Gott samstarf er á milli Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og Gömlubúðar en börn sem tóku þátt í listasmiðju í sumar settu upp sýningu í Gömlubúð og landverðir tóku þátt í dagskrá á vegum miðstöðvarinnar.
Framundan eru stór verkefni í Þjóðgarðinum, komnar eru undirstöður fyrir nýtt fræðslutorg við Skaftafellsstofu og framkvæmdir á nýju fráveitukerfi í Skaftafelli eru hafnar . Við hvetjum íbúa sveitafélagsins til að heimsækja Vatnajökulsþjóðgarð og njóta náttúrunnar.
Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs á suðursvæði óskar íbúum til sjávar og sveita gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Fyrir hönd Vatnajökulsþjóðgarðs
Landverðir