Aukum eldvarnir – það er svo mikið í húfi

0
1090
Borgþór Freysteinsson, slökkviliðsstjóri. Matthildur Ásmundsdóttir, bæjarstóri. Anna Sigurðardóttir, framkvæmdarstjóri Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands ( EBÍ ) og Garðar H.Guðjónsson, framkvæmdarstjóri Eldvarnabandalagsins

Eldvarnaátak Landssambands slökkvi­liðs- og sjúkraflutningamanna fer fram um allt land um þessar mundir eins og mörg undanfarin ár en nú í skugga tíðra eldsvoða á heimilum og óvenjumargra banaslysa það sem af er ári. Þegar þetta er skrifað hafa sex látið lífið í eldsvoðum á árinu, langt umfram það sem almennt gerist. Það er því brýnt að fólk hugi að nauðsynlegum eldvörnum á heimilinu, ekki síst nú í aðdraganda hátíðanna. Í byrjun sumars gerði Sveitarfélagið Hornafjörður skriflegan samning við Eldvarnabandalagið um innleiðingu á innra-eftirliti með brunavörnum í sínum stofnunum, gerð var skrifleg eldvarnastefna sem hægt er að kynna sér á vef sveitarfélagins. Þessa dagana eru fulltrúar að skila inn sínum úttektum til slökkviliðsins og er þetta liður í að vekja fólk til umhugsunar um þennan málaflokk þar sem nokkuð hefur verið um alvarlega bruna víðsvegar um landið.

Leigjendur og unga fólkið

Gallup gerði könnunina fyrir Eldvarnabandalagið 30. september til 7. október síðastliðinn. Góðu fréttirnar eru þær að könnunin sýnir, eins og fyrri kannanir, að heimilin auka eldvarnir sínar jafnt og þétt. Æ færri hafa engan eða bara einn reykskynjara en að sama skapi fjölgar þeim sem hafa þrjá eða fleiri. Mun algengara er nú en fyrir tíu árum að slökkvitæki og eldvarnateppi séu á heimilum.
Frávikin frá þessu eru þó óþægilega mikil og mörg. Þannig er fólk á aldrinum 25-34 ára mun ólíklegra en aðrir til að hafa eldvarnateppi og slökkvitæki á heimilinu. Eldvarnateppi eru að meðaltali á 64,3 prósent heimila en aðeins hjá 48 prósent í umræddum aldurshópi.
Könnunin leiðir í ljós að eldvarnir í fjölbýlishúsum eru lakari en almennt gerist og þá sérstaklega í stærri fjölbýlishúsum. Íbúar í leiguhúsnæði eru sem fyrr mun verr búnir undir eldsvoða en aðrir. Könnun Gallup leiðir í ljós að í 45 prósent íbúða í leiguhúsnæði er enginn eða aðeins einn reykskynjari. Sambærilegt hlutfall á landsvísu er 28 prósent.

Eldvarnaátakið

Landssambandið hefur um langt árabil lagt áherslu á forvarnastarf og hefur haldið Eldvarnaátakinu úti með dyggum stuðningi fjölmargra aðila í rúma tvo áratugi. Við slökkviliðsmenn beinum fræðslu um eldvarnir að nemendum í 3. bekk grunnskóla og fjölskyldum þeirra. Þar leggjum við megináherslu á eftirfarandi:

  • Best er að hafa reykskynjara í öllum rýmum.
  • Slökkvitæki á að vera við helstu flóttaleið.
  • Eldvarnateppi á að vera á sýnilegum stað í eldhúsi.
  • Tryggja þarf öllum á heimilinu að minnsta kosti tvær flóttaleiðir.
  • Að allir þekki neyðarnúmerið, 112, líka börnin.

Öryggi barna og fullorðinna

Efling eldvarna er liður í því að auka öryggi jafnt barna sem fullorðinna á heimilinu. Þegar börnin koma heim úr skólanum eftir að hafa fengið slökkviliðið sitt í heimsókn er því upplagt að foreldrar setjist niður með barninu sínu, kynni sér fræðsluefnið og fari skipulega yfir eldvarnir heimilisins.
Um leið og við slökkviliðsmenn hvetjum fólk til að hafa nauðsynlegan eldvarnabúnað á heimilinu leggjum við ekki síður áherslu á mikilvægi þess að fara varlega í daglegri umgengni á heimilinu. Á næstu vikum ríður sérstaklega á að fara varlega með opinn eld, kertaljós og þvíumlíkt. Og munið að slaka ekki á klónni þótt jólahátíðinni ljúki og nýtt ár gangi í garð því reynslan sýnir að eldsvoðar á heimilum eru ekki síður algengir á fyrstu vikum ársins en á aðventu og um jól.

Við hjá Brunavörnum í Austur – Skaftafellsýslu
óskum ykkur gleðilegra jóla og heillaríkt komandi ár.