Ráðning á framkvæmdastjóra og rannsókna- og þróunarstjóra Orkídeu

0
600
Helga Gunnlaugsdóttir rannsókna- og þróunarstjóri Orkídeu

Gengið hefur verið frá ráðningu á framkvæmdastjóra og rannsókna- og þróunarstjóra Orkídeu.
Sveinn Aðalsteinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýsköpunarverkefnisins Orkídeu. „Ég tel að aukin áhersla á nýsköpun á Suðurlandi tali beint inn í þá landkosti og mannauð sem svæðið býður upp á. Áhugi samfélagsins á nýtingu grænnar orku til matvælaframleiðslu hefur aukist mikið sem er mjög ánægjulegt. Hér á Suðurlandi er mikil reynsla af hátæknimatvælaframleiðslu og öflugir frumkvöðlar sem ég hlakka mjög til að vinna með. Okkur eru allir vegir færir.“ segir Sveinn sem er spenntur að takast á við ný og spennandi verkefni.

Sveinn Aðalsteinsson framkvæmdastjóri Orkídeu

Sveinn Aðalsteinsson starfaði áður sem m.a. framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, sem sérfræðingur og framkvæmdastjóri um uppbyggingu ylræktar á Hellisheiði, framkvæmdastjóri Starfsafls starfsmenntasjóðs, skólameistari Garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann hefur setið í fjölmörgum stjórnum s.s. í stjórn Háskólafélags Suðurlands og Fræðslunets Suðurlands og tekið þátt fjölmörgum verkefnum á sviði náttúrunýtingar og ylræktar.
Sveinn útskrifaðist með B.Sc. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands, doktorspróf, Ph.D., í plöntulífeðlisfræði frá Lundi í Svíþjóð, docent titil við sænska landbúnaðarháskólann og M.Sc. gráðu frá Háskóla Íslands með áherslu á stjórnun og stefnumótun.
Helga Gunnlaugsdóttir hefur verið ráðin sem rannsókna- og þróunarstjóri Orkídeu. „Ég hef mikinn áhuga á að gera íslenska matvælaframleiðslu umhverfisvænni með nýtingu grænnar orku og stuðla að nýsköpun og verðmætasköpun á sviði matvælaframleiðslu með sjálfbærni og hringrásarhagkerfið að leiðarljósi og hlakka mikið til að beita þekkingu minni og reynslu við að takast á við ný verkefni. Ég tel að Ísland eigi mikla möguleika á að takast á við samfélagslegar áskoranir sem tengjast fæðuöryggi, sjálfbærni og umhverfismálum með aukinni nýtingu á grænni orku og vil leggja mitt að mörkum til að svo megi verða.“
Helga hefur starfað hjá Matís í 14 ár þar sem hún hefur tekið þátt í fjölmörgum innlendum og alþjóðlegum rannsóknaverkefnum sem tengjast nýsköpun og rannsóknum á sviði matvælaframleiðslu og lýðheilsu. Helga hefur verið gestaprófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands frá 2012.
Helga er með B.Sc. gráðu í matvælafræði frá Háskóla Íslands, M.Sc. gráðu í matvælafræði frá Tækniháskólanum í Nova Scotia í Kanada og doktorspróf í matvælaverkfræði frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð.