Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands

0
513

Um var að ræða síðari úthlutun sjóðsins á árinu 2020. Umsóknir voru samtals 165, í flokki atvinnu- og nýsköpunarverkefna bárust 72 umsóknir og 93 umsóknir í flokki menningarverkefna. Í heild var úthlutað 40 m.kr. eða 20 m.kr. í hvorn flokk til samtals 85 verkefna, 31 verkefni í flokki atvinnu- og nýsköpunarverkefna og 54 verkefni í flokki menningarverkefna.
14 verkefni úr Sveitarfélaginu Hornafirði hlutu styrk. Í flokki atvinnu- og nýsköpunarverkefna hlaut Sólsker ehf. styrk til vöruþróunar og markaðsetningar á sínum vörum og einnig fékk Pálmi Geir Sigurgeirsson styrk til framleiðslu á tilbúnum matvælum úr villibráð.
Í flokki menningarverkefna hlutu: Hlynur Pálmason styrk fyrir stuttmyndina “Hreiðrið”, Tjörvi Óskarsson fyrir verkefnið “Allt í björtu báli – Ég var ung gefin Njáli” sem er fjölmenningarlegt samspil listformanna ritlistar, tónlistar, dans, myndlistar og kvikmyndagerðar og byggir á brennunni að Bergþórshvoli úr Brennu-Njálssögu en verkefnastjóri er Stefán Sturla Sigurjónsson. Blús- og rokkklúbbur Hornafjarðar hlaut styrk fyrir tónlistarhátíðina “Norðuljósablús 2021”. Gísli Magnússon fyrir “Gímaldin í Fagurhólsmýri”. Hanna Dís Whitehead fyrir “Steinaríkið” en það er samvinnuverkefni Hönnu og náttúrugripasafns Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar en í verkefninu verða Steinar í safninu skoðaðir og unnið útfrá þeim tuftuð teppi innblásin af þeim og í kjölfarið verður haldin sýning á steinunum og teppunum. Lind Völundardóttir hlaut styrk fyrir verkefni “MUUR”. Menningarmiðstöð Hornafjarðar fékk styrk fyrir 6 verkefni, myndlistarsýningu á verkum Katrínar Sigurðardóttur, “Fornbýli í landslagi – ljósmynda- og veggspjaldasýning”, “Sundlaugarpartý”, heimsókn barnabókahöfunda í Grunnskóla Hornafjarðar, rithöfundakvöld og upplestrarkvöld með fjölmenningarlegu ívafi.
Eystrahorn óskar öllum styrkþegum til hamingju.