Orkudrykkjaneysla ungmenna

0
1464
Hér má sjá svörun hornfirskra ungmenna á orkudrykkjaneyslu frá því í apríl s.l. samanborið við landið í heild.

Undanfarið hefur talsverð umræða farið fram um afleiðingar orkudrykkjaneyslu á heilsu og líðan ungmenna, en orkudrykkir er vinsæll svaladrykkur meðal þeirra. Innihaldsefni í þessum drykkjum geta verið nokkuð mismunandi en sameiginlegt með þeim er að þeir innihalda allir töluvert magn af koffíni.
Samkvæmt nýlegri rann­sókn sem gerð var af Áhættumatsnefnd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til könnunar á heilsufarslegri áhættu vegna neyslu orkudrykkja ungmenna í 8.-10. bekk kom í ljós að neysla íslenskra ungmenna á orkudrykkjum sem innihalda koffín er með því mesta sem þekkist í Evrópu. Niðurstöðurnar sýna að um 30% íslenskra ungmenna í 8.bekk drekka orkudrykki er innihalda koffín, að neyslan eykst með aldrinum og er um 50% meðal ungmenna í 10. bekk.
Rannsóknir hafa leitt í ljós sterkt neikvætt samband á milli neyslu orkudrykkja og svefns. Ungmennin eiga erfiðara með að sofna og hlutfall þeirra sem segjast sofa 6 tíma eða minna á sólarhring er tæplega 16% sem er mjög hátt.
Í einum 200 milligramma kaffibolla eru um 100 mg. af koffíni og í einni 300 milligramma orkudrykkjadós er magnið á bilinu 100 – 180 mg. Hæfilegt er talið fyrir fullorðinn einstakling að drekka 2 – 4 bolla af kaffi á dag en ekki er óalgengt að unglingar í 8. – 10. bekk drekki tvær til þrjár orkudrykkjadósir, þannig að þeir geta verið að innbyrða 200 – 400 mg. af koffíni daglega.
Afleiðingarnar koma svo fram í hjartsláttartruflunum, svefnleysi, svima, kvíða og streitu svo eitthvað sé nefnt.

Yfirlit yfir svefn hornfirskra nemenda í 8.-10. bekk

Rannsóknir & greining hafa um árabil kannað neyslu ungmenna á orkudrykkjum og á svefnvenjum þeirra. Á Hornafirði fáum við niðurstöður okkar ungmenna til hliðsjónar við landið í heild.
Markaðssetningu orkudrykkja er í auknum mæli beint sérstaklega að börnum og ungmennum. Umbúðirnar eru orðnar litríkari, meira úrval er af bragðtegundum og eru drykkirnir oft settir fram sem svalandi íþróttadrykkir sem stuðli að hreysti og þeim stillt upp á áberandi stöðum í verslunum.
Mikilvægt er að börn, ungmenni og foreldrar geri sér grein fyrir þeim afleiðingum sem neysla þessara drykkja getur haft á heilsu og líðan barna og ungmenna, einnig er mikilvægt að söluaðilar drykkjanna sýni samfélagslega ábyrgð með því að markaðssetja þá ekki sem skaðlausa, hressandi svaladrykki.

Stýrihópur um Heilsueflandi samfélag

Heimildir:
Rannsóknir og Greining
https://rannsoknir.is/
Embætti Landlæknis
https://www.landlaeknir.is/
Matvælastofnun
https://www.mast.is/is/um-mast/utgefid-efni/skyrslur/neysla-ungmenna-a-orkudrykkjum-gefur-tilefni-til-adgerda