Fimm milljarðar til sveitarfélaga

0
585

Frá upphafi heimsfaraldursins hef ég lagt mikla áherslu á góð samskipti við forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarstjórna almennt, enda slær mitt gamla sveitarstjórnarhjarta með þessu mikilvæga stjórnsýslustigi.

Stutt við heimili og fyrirtæki

Ríkissjóður hefur tekið að sér að bera hitann og þungann af öllum mótvægisaðgerðum vegna áhrifa faraldursins og því verða áhrifin á fjárhag ríkissjóðs mikil. Verkefnið var – og er – að styðja við heimilin og fyrirtækin í landinu og það hefur tekist á margan hátt vel, þótt enn sé gríðarmikið verk að vinna.
Flestar þessar aðgerðir ríkisins hafa haft bein eða óbein áhrif á fjármál sveitarfélaganna. Hlutabótaleiðin og öflugt atvinnuleysistryggingarkerfi hefur til dæmis án efa gert það að verkum að fallið í útsvarinu var minna en búast mátti við, enda tekur ríkið á sig jaðaráhrifin í tekjuskattskerfinu en sveitarfélögin fá útsvarið af fyrstu krónu sem ríkið tryggir. Endurgreiðsla á virðisaukaskatti til sveitarfélaga eða stofna þeirra gæti skilað um 2 milljörðum króna á tímabilinu, veitt var 600 m.kr. framlag til að styðja við lágtekjuheimili til að tryggja jöfn tækifæri barna til íþrótta og tómstundastarfs, stuðningur við sóknaráætlanir sveitarfélaga og svo mætti áfram telja.

Staðið við bakið á sveitarfélögum

Í lok september undirritaði ég yfirlýsingu ásamt forsætisráðherra og fjármálaráðherra og formanni og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga sem felur í sér samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga sem felur í sér um fimm milljarða innspýtingu. Aðgerðirnar eru 670 milljón króna aukaframlag sem varið verði til sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks, 730 milljón króna framlag til sveitafélaga þar sem kostnaður við fjárhagsaðstoð er yfir nánar tilgreindum mörkum, 500 milljón króna framlag sem nýtist sem stuðningur við sveitarfélög sem glíma við hvað mesta fjárhagserfiðleika vegna heimsfaraldursins, 935 milljón króna framlag sem styður við áætlun um eflingu sveitarstjórnarstigsins og aukna sjálfbærni með sameiningum, 480 milljón króna tímabundin lækkun tryggingagjalds og heimild til að nýta einn og hálfan milljarð úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sem nýtt verði til að vega upp á móti lækkun almennra tekju- og útgjaldajöfnunarframlaga sjóðsins. Viðbótarframlög ríkissjóðs nema því samtals 3.305 m. kr. og heildarstuðningur á grundvelli yfirlýsingarinnar nemur í heild 4.805 m. kr.
Auk þess segir í yfirlýsingunni að ríkisstjórnin muni standa að baki sveitarfélögum eins og frekast er unnt svo starfsemi þeirra raskist ekki um of á komandi mánuðum og misserum.

Atvinna, atvinna, atvinna

Við lifum á óvenjulegum tímum. Nú er tími fyrir jákvæðar hugsanir og skynsamar lausnir. Það er ekki tími íhaldssemi, svartsýni og úrtöluradda, heldur tími nýsköpunar og úrræða sem leiða okkur áfram veginn. Aðalverkefni okkar sem stöndum í stafni, hvort heldur er í ríkisstjórn eða í sveitarstjórnum, er að standa vörð um störf og skapa störf. Getum við ekki öll verið sammála um það?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra