Þegar harðnar á dalnum og blikur eru á lofti er mikilvægt að leggja ekki árar í bát heldur horfa fram á við og skipuleggja verkefni sem gera okkur kleift að komast upp úr öldudalnum.
Því hefur verið haldið fram og kannski með réttu, að nýsköpun sé ekki ein af leiðunum
fyrir okkur til að koma af stað vexti í hagkerfinu, heldur eina leiðin. Hvort það sé hárrétt skal ósagt látið en mikilvægi nýsköpunar eykst í það minnsta mikið í samdrætti.
Það sama má segja um menninguna og þau miklu áhrif sem blómlegt menningarlíf hefur á mannlíf og velferð samfélaga. Þá er einnig vert að nefna skapandi greinar og þau mikilvægu efnahagslegu áhrif sem velgengni og vöxtur þeirra hefur á hagkerfið. Innan skapandi greina eru fjölmörg tækifæri til nýsköpunar. Suðurland getur staðið framarlega þegar kemur að skapandi greinum, hér er mannauður fyrir hendi, staðsetning, fjarskipti, samgöngur, umferð um landshlutann og margt annað sem styður vöxt þeirra.
Markmið Uppbyggingarsjóðs Suðurlands er meðal annars að styðja við nýsköpun og atvinnuskapandi verkefni sem efla fjölbreytileika atvinnulífs, ásamt því að efla menningarstarfsemi og listsköpun á Suðurlandi. Sjóðurinn styrkir árlega á bilinu 130-160 verkefni, annars vegar í flokki nýsköpunar og atvinnu og hins vegar á sviði menningar. Tvisvar á ári er opnað fyrir úthlutanir, og rennur frestur út í mars og október ár hvert. Núna er opið fyrir umsóknir en frestur til að skila inn í þetta umsóknarferli rennur út 6. október næstkomandi kl. 16.00. Umsóknum skal skilað í gengum form sem er aðgengilegt á heimasíðu SASS og þar má einnig finna áherslur og markmið sjóðsins ásamt úthlutunarreglum og mati á umsóknum, sem mikilvægt er fyrir umsækjendur að kynna sér.
Ráðgjafar á vegum SASS sem eru vítt og breytt um Suðurland eru reiðubúnir að
veita aðstoð við mótun verkefna, gerð umsókna og áætlunargerð. Hægt er að hafa samband við ráðgjafa símleiðis, með tölvupósti eða bóka með þeim fund. Nú er einnig hægt að bóka ráðgjöf í fjarfundi sem ráðgjafi setur upp í samráði við umsækjanda. Fjarfund er hægt að panta á heimasíðu SASS eða með því að senda tölvupóst á viðkomandi ráðgjafa.
Við bíðum spennt eftir að heyra ykkar hugmyndir
Með kveðju,
Hrafnkell Guðnason
Ráðgjafi SASS