Nýlega var greint frá því að Pútin Rússaforseti er farinn að nota nær eingöngu nýja rússneska forsetabílinn sem er ekki Jaris heldur Aurus – ennfremur að forframleiðsla bílsins fyrir sérpantanir eigi að hefjast í nóvember á þessu ári. Almenn framleiðsla skal svo hefjast á fyrsta árshluta ársins 2021.
Innfluttir bílar þóttu lengi vel fínni og var þetta verkefni mögulega gangsett því til höfuðs.
Árið 2012 var hafist handa við að framleiða jeppa og sendibíla í verðflokki fyrir mektarfólk. Árið eftir hófst hönnum forsetabílsins undir merkjum NAMI sem útleggst sem nokkurskonar Ríkisvísindastofnun um bifreiðar- og vélknúin farartæki. Framtakið var ekki bara fjármagnað að hluta af Iðnaðar og verslunarráðuneytinu heldur hafði forsetinn ráðgefandi hlutverk við framleiðsluna.
Límósína Senat – sem er bíll forsetans, er 6 tonna brynvarinn bíll, sex og hálfur metri á lengd, tveir metrar á breidd og 1,70 á hæð.
Það er spurning hvort eitthvað eigi að lesa í það að forsetinn fékk hann afhentan þegar hann var settur inn í sitt fjórða tímabil, og lögunum breytt um hámarkssetu einstakra þjóðhöfðingja. Talað er um að bíllinn eigi að kosta 25 milljónir rúblna (50 milljónir íslenskar). Til samanburðar við aðra sérútbúna bíla þjóðarleiðtoga má nefna að Aurus Pútíns er þannig dýrari en viðlíka farartæki frá Mercedes Benz en ódýrari en Rolls Royce.
Vélin er hibrid og rafmagnsvélin hleðst upp af gangi bensínarvélar sem er V8 túrbovél hönnuð í samvinnu við Porsche Engineering. Hámarkshraði er gefinn upp sem 250 k.á.k og hann dregur uppí hundrað á 4.7 sekúndum. ´
Í fjölmiðlum má oft sjá gulllitaðan Aurus og Pútín klipptan inn á sömu mynd, en sá gyllti er oftast Sedan meðan Pútín og embættismennirnir virðast nota frekar svarta límósínu og eða minivaninn – nafnið var valið útfrá latneska „aurum“ eða gulli.
Þegar Pútín tók til starfa voru bifreiðar æðstu embættismanna Rússlands gjarna Mercedes Benz límósína af s-gerð og Pútín keyrði um á Mercedes S600 Pullman Guard fyrstu þrjú tímabil sín sem forseti.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem rússneska ríkið lætur hanna bíl sérstaklega fyrir toppana í þjóðfélaginu. Stalín vildi hvorki sjá breska né franska bíla, Rolls Royce eða Turcat-Mery – sem aðrir leiðtogar notuðu. Hann var afturámóti mjög hrifinn af bandarískum bílum og valdi sér 12 sílindera Packard Twin 6, sem var líklega bara með brynvörðu þaki en það var bætt úr því þegar 8 sílindra vélin tók við af eldri týpunni árið 1933 og Stalín fékk fyllilega brynvarinn bíl af nýjustu gerð að gjöf frá Franklin Roosevelt, Bandaríkjaforseta.
Á honum fór Stalín á fræga fundi í Teheran, Jöltu og Potsdam og út um gluggann skoðaði leiðtoginn gjörsigraða Berlín. Þegar svo var komið var Stalín staðfastlega þeirrar skoðunar að fyrirmenn Sovétríkjanna ættu ekki ferðast á erlendum bílum. Þá var farið að framleiða innlendan bryndreka fyrir æðstu ráðamenn og varð hann síðar þekktur sem Zis með nokkrum undirtitlum, 115,110c, 145 og fleirum. 115 var sérstök gerð einungis fyrir aðalritarann, sem þó gat ekki stillt sig um að nota Packardinn líka þegar ekki sást til.
Krúshev sneri aftur til bandarískra bíla og keyrði um á Lincoln Zephyr og Cadillac Fleetwood sem ku hafa komið úr bílaflota Hitlers.
Gísli Magnússon