Seglum hagað eftir vindi

0
850

Önnur aðgerðaráætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur var kynnt á dögunum. Af hálfu stjórnarandstöðunnar sætir hún gagnrýni fyrir að vera of mögur. – Fyrirtæki í forgrunni, en ekki fólk, segir einn. – Ekki neitt marktækt gert fyrir heimilin segir annar, og sá þriðji að ekki sé gert nóg fyrir fyrirtæki, og allra síst varðandi nýsköpun sem er lykill að framtíð sumra atvinnuvega.
Er fólk á heimilum?
Þá er bara að rýna í langa lista aðgerða fyrsta og annars „pakka“. Milljóna- eða milljarðaupphæðir ganga til geðheilbrigðisþjónustu, heilsugæslunnar, átaks gegn heimilisofbeldi, ofbeldi gegn börnum og viðkvæmum hópum, til stuðnings tómstundastarfi barna og virkni foreldra langveikra barna, og til úrræða við félagslegri einangrun fólks. Til fjölgunar alls kyns námsúrræða og einnig til sérnámskeiða fyrir atvinnuleitendur og til tímabundinna starfa ungs fólks. Listamannalaun eru styrkt og stutt er við aukin félagsstörf aldraðra og öryrkja. Þá er félagslegur stuðningur aukinn við fjölskyldur með fötluð börn og börn af erlendum uppruna og fjölmörg heimili fá hækkaðar barnabætur (skv. ákvörðun fá því fyrr á þessu þingi) og sérstakur barnabótaauki verður greiddur út í byrjun júní.
Eru launamenn hjá fyrirtækjum?
Hægt er að rýna í fleiri aðgerðir „pakkanna“ og skoða reglur um styrki til fyrirtækja er var skipað að loka, ríkistryggð stuðningslán til viðbótar við mun hærri brúarlán, hlutastarfabætur ríkisins (beint til launamanna), kanna frestun skattgreiðslna og breyttar reglur um eftirgjöf skulda lögaðila. Aðstoð við fyrirtæki er að stórum hluta aðstoð við launamenn og launamenn og einyrkjar eiga heimili. Því er tal um að sneitt sé framhjá heimilum, og fyrirtækjum hyglað fremur en fólki, dapurlegur útúrsnúningur og pólitísk brella. Hitt má viðurkenna að enn þarf að gera betur til þess að aðstoð við heimli dugi og sem flestum fyrirtækjum forðað frá þroti. Að því er að sjálfsögðu unnið næstu mánuði.
Of lítið gert fyrir nýsköpun í landinu?
Í fyrsta sinn er til nýsköpunarstefna á Íslandi. Búið var að auka fé til nýsköpunar áður en faraldurinn kom til sögu og breyta skipulagi og fjármögnunarleiðum í þágu öflugari vinnu. Með „pökkunum“ tveimur er enn bætt við. Fyrirtæki í nýsköpun og tækniþróun fá skattaívilnanir, endurgreiðslur til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar eru hækkaðar úr 20 í 25%, Tækniþróunarsjóður er efldur, nýr sprota- og nýsköpunarsjóður stofnsettur (Kría) og ríkið leggur til mótframlag til fyrirtækja sem eru komin mjög langt í þróun að lokastigi. Rýmkað er um fjárfestingar lífeyrissjóða í nýsköpun. Öflugur Matvælasjóður hefur starfsemi til nýsköpunar og þróunar matvæla og samningum við garðyrkjubændur verður lokið með aukaframlagi og auknu fé til niðurgreiðslu rafokukostnaðar. Nýsköpunarsjóður námsmanna verður efldur til að efla nýsköpun meðal ungra frumkvöðla. Nóg að gert? Efalítið ekki og eftir mat á framgangi nýsköpunar, m.a. utan SV-hornsins, verður staðan endurskoðuð og fleiri aðgerðir kynntar.

Ég hef ekki tíundað upphæðir eða allar aðgerðir, aðeins reynt að andmæla síbyljunni um hve lítil skref eru tekin. Minni aðeins á allmargar aðgerðir sem munu gagnast vel. Auðvelt er að kynna sér jafnt upphæðir sem aðgerðir. Sú leið að ákvarða viðbrögð af yfirvegun og taka skref í takt við framvindu mála er réttari í langvinnri náttúruvá en örfá sjömílnaskref sem hvorki taka mið af símati né mjög breytilegum aðstæðum, einkanlega utanlands.

Ari Trausti Guðmundsson
Höfundur er þingmaður VG í Suðurkjödæmi