Ferðaþjónusta til framtíðar

0
724

Á tímum sem þessum er gott til þess að hugsa að sunnlensk ferðaþjónusta hefur verið byggð upp af fagmennsku og framsýni á löngum tíma. Frumkvæði, nýsköpun, seigla og dugnaður aðila hefur komið Suðurlandi á kortið sem áfangastað ferðamanna sem eftir er tekið víða um heim. Landshlutinn skartar fjölda þekktra náttúruperla sem fyrst og síðast laða ferðamenn til landsins og þaðan inn til landshlutans. Þar hefur gestum gefist kostur á að upplifa landshlutann með ýmsum hætti m.a. í gegnum fjölbreytta afþreyingu, menningu og matarupplifun.
Með öflugri vöruþróun og markaðssetningu hefur okkur á Suðurlandi tekist að byggja upp öfluga heilsárs atvinnugrein. Það hefur skapað ný tækifæri fyrir byggðarlög sem svo er forsenda fjölbreytts mannlífs og framgangs samfélaga.
Á þessum fordæmalausu tímum sem við lifum nú, á Suðurland mikið undir því hvernig málin þróast. Áhrifin á fyrirtækin, sem mörg hver eru lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki, eru og verða gríðarleg. Ljóst er að ekki verður hægt að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á rekstur þessara fyrirtækja í þeirri alheimskreppu sem nú gengur yfir og munu áhrifin koma niður á Suðurlandi líkt og annars staðar. Engu að síður er mikilvægt á þessum tímapunkti að miða ákvarðanir og aðgerðir að þeirri sviðsmynd sem við viljum sjá við enda ganganna. Hvers konar atvinnugrein viljum við sjá að þessu tímabili loknu og hvers konar áfangastað viljum við eiga þegar stormurinn er liðinn hjá?
Því skiptir máli að tekin sé ákvörðun um að standa vörð um fyrirtækin á landsbyggðinni. Ekki eingöngu til að tryggja að áfangastaðurinn sé í raun til staðar þegar um hægist heldur einnig útfrá byggðarsjónarmiðum. Stjórnvöld geta nefnilega með aðgerðum sínum eða þeirri ákvörðun að ráðast ekki í aðgerðir, haft áhrif á þá útkomu. Standa þarf vörð bæði um þau samfélög og þau fyrirtæki sem hafa verið byggð upp undanfarin ár af þeirri elju og seiglu sem áður gat um. Þegar um hægist eigum við eftir að standa frammi fyrir gríðarlegri samkeppni við önnur lönd og áfangastaði sem einnig munu berjast um athygli og áhuga fólks til ferðalaga. Þá mun skipta máli að til staðar séu samfélög og fyrirtæki til að taka á móti ferðamönnum af þeirri þekkingu og reynslu sem hefur verið byggð upp síðustu ár.
Aðgerðir stjórnvalda á tímum sem þessum skipta sköpum og þá ekki bara fyrir Suðurland eða sunnlensk fyrirtæki. Mikilvægt er að slá skjaldborg um fyrirtækin í landinu og þar með samfélögin og heimilin. Þá þarf að líta til lengri tíma eða allavega fram að næsta sumri. Með því að tryggja rekstrarhæfi fyrirtækja í greininni skapast grundvöllur fyrir þau til að halda sjó, tryggja að þekking og reynsla haldist innan fyrirtækjanna sem munu, nú sem fyrr, nýta krafta sína í vöruþróun, nýsköpun og markaðssetningu til framtíðar. Mun það ekki einungis halda lífi í byggðunum, heldur vera grunnforsenda þess að áfangastaðurinn Ísland og þar með Suðurland sé í stakk búið að komast hratt og vel útúr lægðinni sem nú geisar. Gríðarleg mistök yrðu fólgin í því að tapa þeirri þekkingarauðlind sem byggð hefur verið upp í greininni síðustu ár og áratugi og í raun skilja milli feigs og ófeigs í alþjóðlegri samkeppni áfangastaða næstu misserin.

Dagný H. Jóhannsdóttir
Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands