Getur þú gert gamanmynd á 48 klukkustundum?

0
921
Gestir á Gamanmyndahátíð Flateyrar í fyrra

Gamanmyndahátíð Flateyrar hefur í samstarfi við Reykjavík Foto efnt til 48 stunda gamanmyndakeppni á netinu. Keppnin gengur út á að eintaklingar eða lið geta skráð sig til leiks. Frá og með 27. mars fá liðin 48 klukkustundir til að fullklára gamanmynd út frá því þema sem verður gefið upp. Sýningarhæfum myndum þarf svo að skila inn til Gamanmyndahátíðarinnar 48 klukkustundum síðar, þann 29. mars. Í kjölfarið verður netkosning um fyndnustu 48 stunda gamanmyndina og fær sigurmyndin veglega Canon EOS M50 myndvél frá Reykjavík Foto að launum.
Gamanmyndahátíð Flateyrar er fyndnasta kvikmyndahátíð Íslands og verður hún haldin í fimmta skiptið nú í haust. Á síðustu hátíð var í fyrsta skiptið keppt í 48 stunda gamanmyndagerð á Íslandi, og var stuttmyndin Ballarhaf valin fyndnasta stuttmyndin af áhorfendum þar sem þemað var Fiskur.
Það hefur sjaldan eða aldrei verið jafn mikil þörf á gleði og húmor eins og nú og því er tilvalið að halda nýja 48 stunda gamanmyndakeppni. Keppnin verður opin öllum og hægt að taka þátt hvar sem er. Einstaklingar, fjölskyldur eða vinahópar geta skemmt sér við þetta saman, tekið upp litla gamanmynd í sínu nærumhverfi. Það þarf ekki mikinn tækjabúnað til að setja saman stutta mynd, bara góða hugmynd og einfalda myndavél eða síma.
Á sama tíma og við vonumst til að fá margar skemmtilegar myndir frá áhugafólki skorum við einnig á kvikmyndagerðarfólk að taka þátt og leggja sitt af mörkum við að gleðja landsmenn með nýjum fyndnum stuttmyndum.
Skráning í keppnina fer fram á vefsíðu Gamanmyndahátíðarinnar:
https://www.icelandcomedyfilmfestival.com/48-stunda-gamanmyndakeppni

Með gleði og húmor komumst við í gegnum þessa skrítnu tíma.