Hvað gerist ef við sofum of lítið?
Þeir sem sofa of lítið finna oft breytingu á skapi, þráðurinn verður stuttur, viðbragðsflýtir og einbeiting minnkar til muna.
Ef þú sefur of lítið er viðbúið að:
- Þér finnist erfitt að fara framúr á morgnana
- Þér finnist þú verða að leggja þig á daginn
- Þú sofnar fyrir framan sjónvarpið
- Þú finnur fyrir syfju eftir máltíðir
- Þú dormar með vekjaraklukkuna á morgnana.
Merki svefnskorts koma fljótlega í ljós og rannsóknir hafa sýnt að ein svefnlaus nótt nægir til að breytingar verði á líkamsstarfseminni. T.d. getur orðið aukning á bólguefnum í blóðinu,og brenglun á sykurbúskap sem getur leitt til sykursýki. Ónæmiskerfið verður fyrir áhrifum og því mikilvægt á tímum flensu og pesta að ná góðum nætursvefni.
Neikvæðar afleiðingar of lítils svefns geta verið:
Skapsveiflur, veikburða ónæmiskerfi, minnisleysi, aukin streita, þyngdaraukning, líkur á háum blóðþrýstingi og hjartavandamálum svo eitthvað sé upptalið.
Það er ljóst að til mikils er að vinna með að ná góðum nætursvefni og því mikilvægt að leggja áherslu á það við bæði unga sem aldna.
Hópur um Heilsueflandi samfélag í sveitarfélaginu Hornafirði