Ný markmið og áherslur Uppbyggingarsjóðs Suðurlands

0
711

Uppbyggingarsjóður Suðurlands er hluti af Sóknaráætlun Suðurlands. Með samþykkt nýrrar Sóknaráætlunar Suðurlands 2020-2024 hafa verið samþykkt ný markmið og áherslur sjóðsins fyrir sama tímabil. Ný markmið og áherslur opna tækifæri fyrir ný og fjölbreyttari verkefni. Uppbyggingarsjóður Suðurlands er samkeppnissjóður sem þýðir að vel mótuð verkefni, skýrar og góðar umsóknir, eru líklegri til að hljóta styrki. Búið er að opna fyrir umsóknir fyrir fyrri úthlutun úr sjóðnum á þessu ári og verður opið fyrir umsóknir til og með 3. mars, kl. 16.00. Uppbyggingarsjóður Suðurlands úthlutar styrkjum tvisvar á ári og er seinni úthlutun að hausti. Á síðasta ári var úthlutað samtals 52 styrkjum til atvinnu- og nýsköpunarverkefna og 101 styrkjum til menningarverkefna. Hæsti styrkur á síðasta ári var 2,5 mkr.
Umsóknir fyrir verkefni í sjóðinn geta uppfyllt eina eða fleiri áherslur sjóðsins en skilyrði er að öll verkefni uppfylli að lágmarki markmið sjóðsins í þeim flokki sem það tilheyrir, menningu eða atvinnu- og nýsköpun. Ráðgjafar á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) eru staðsettir á sex stöðum á Suðurlandi og eru tilbúnir til að aðstoða við mótun verkefna og veita ráðgjöf við gerð umsókna. Ítarlegri upplýsingar um sjóðinn, ráðgjafa sjóðsins og fyrri úthlutanir eru að finna á heimasíðu samtakanna www.sass.is

Guðlaug Ósk Svansdóttir
ráðgjafi SASS

Atvinnuþróun og nýsköpun

Markmið:

  • Að styðja atvinnuskapandi og/eða framleiðniaukandi verkefni
  • Að styðja nýsköpun og verkefni sem efla fjölbreytileika atvinnulífs

Áherslur:

  • Nýsköpun meðal starfandi fyrirtækja og markaðssókn fyrir vörur og þjónustu inn á nýja markaði
  • Nýsköpun í orkunýtingu og matvælaframleiðslu og þróunarverkefni á sviði skapandi greina og hátækni
  • Verkefni sem fela í sér eða styðja við nýsköpunarstarf ungs fólks
  • Verkefni sem stuðla að sjálfbærni og jákvæðum umhverfisáhrifum
  • Verkefni er lúta að sókn í alþjóðlega samkeppnissjóði
  • Rannsóknir og samstarfsverkefni sem tengjast markmiðum sjóðsins

Menning

Markmið:

  • Að efla menningarstarfsemi og listsköpun á Suðurlandi

Áherslur:

  • Viðburðir og samstarfsverkefni á sviði fjölmenningar
  • Verkefni sem styðja við rými til listsköpunar íbúa og þróunarverkefni meðal safna, setra og sýninga
  • Verkefni sem hvetja til samstarf á milli tveggja eða fleiri aðila, byggðarlaga, listgreina og uppsetningar viðburða á fleiri en einum stað
  • Verkefni sem fela í sér eða styðja við listsköpun og menningarstarf ungs fólks
  • Listasmiðjur og listkennsla fyrir börn og ungmenni
  • Menningarverkefni sem styðja við aukna umhverfisvitund, sjálfbærni og/eða byggja á menningararfi Suðurlands