Greinarhöfundur, Sveinur Ísheim Tummasson er fæddur í Þórshöfn í Færeyjum og er stjórnmálafræðingur og examart í norrænum fræðum. Hann hefur búið á Höfn í rúmt ár ásamt sambýliskonu sinni Bryndísi Bjarnarson, hann starfar sem rithöfundur, leiðsögumaður og fræðimaður.
Færeyingar hafa lengi reynt að halda í þann sið, að jólahátíðin hefjist á aðfangadag, þegar klukkan slær sex, mikilvægasti dagurinn er jóladagur, þann dag er Jesúbarnið var borið í heiminn. Nú til dags byrja jólin í Færeyjum í nóvember fyrir tilstilli markaðsins, líkt og á vestrænum slóðum. Börnin hlakka mest til að komast í pakkanna undir trénu (sem vonandi ekki eru gerðir úr plasti) á aðfangadagskvöld.
Jólin eru hátíð barnanna, og á jólunum eru allir börn, eins og sagt er. Færeyskur sálmur hefur þá kenningu, að í þessu stutta jarðlífi okkar er endurskin jólastjörnunnar úr augum barnanna besta kennileitið.
Margir Færeyingar borða ennþá siginn fisk og sperðil um hádegi á aðfangadag eins og gert var áður fyrr, en í dag koma margir saman á Þorláksmessu til að borða þennan mat til að halda í hefðirnar. Færeyingar eins og Íslendingar hafa haldið Þorláksmessu frá miðöldum.
Dómkirkjan, sem byggð var í Kirkjubæ á 13. öld, Magnúskirkja, er einnig vígð Þorláki helga til heilla, og á meðal helgigripa í hinum svonefnda Gullskáp, sem hefur að geyma marga merka helgigripi, er bein af Þorláki helga – þrátt fyrir að Páfinn hafi ekki útnefnt hann sem dýrling fyrr enn árið 1984.
Jólasiðir hafa verið og eru mismunandi eftir fjölskyldum, byggðum og eyjum, en í dag er jólahald orðið sambærilegt um allt land, og flest allir Færeyingar hafa tekið upp einhverja nútíma, erlenda jólasiði, eins og flestar aðrar þjóðir.
Þegar veður var í lagi á Þorláksmessudag, fór ég, sem dæmi um okkar siði, með móðurafa út í kirkjugarð til að leggja greinar á leiði foreldra hans, því langafi á Hvítanesi og Þorlákur helgi dóu sama dag, en það voru 752 ár á milli dauðdaga þeirra.
Á Þorláksmessu var hefð að fara til sjós og „fá ferskt“ til jóla. Amma mín fæddist á vormánuðum 1912. Þorláksmessudagur árið 1913 var mikill feigðardagur í Færeyjum, aftakaveður kom sjómönnum frá Norðureyjum í opna skjöldu, þeir höfðu róið langt frá landi, og fórust þrír bátar. Einn bátanna var frá Skarði í Kunoy, og missti sú byggð alla vinnufæra menn. Afi ömmu, Heini af Skarði, var föðurbróðir Símunar av Skarði, sem orti hinn nýja þjóðsöng okkar Færeyinga „Tú alfagra land mítt“. Reynt var að halda byggðinni uppi, en það gekk ekki. Á þessu ári eru 100 ár frá því að Skarðsbyggð lagðist í eyði. Elsta konan sem flutt var frá Skarði nálgaðist tíræðisaldur og mælti hún, þegar ömmusonur hennar bar hana á baki niður í bátinn, að þessi dagur væri sér verri heldur en dagurinn þegar allir fórust.
Norrænn höfðingi mun aldrei svíkja þá trú, að hið góða mun sigrast á hinu illa, eins og ljósið mun enn einu sinni takast á við myrkrið – og sigra! Í gær eignuðust guðsonur minn og konan hans, Óluva, dóttur, sem er auðvitað besta jólagjöf, er hugsast kann, nú er barnahátíðin mikla gengur í garð.
Jólahátíðin endar, þegar klukkan slær sex á annan í jólum, og þá fara Færeyingar um allt land að dansa og kveða eftir fornri hefð. Þá byrjar jólahald, sem hefur ekki mikið með kristna trú að gera. Tímabilið fram að þrettándanum nefnist milli jólanna, og 6. janúar gomlu jól, því júlíanska tímatalið var alrangt og þurfti að leiðrétta það með 11 dögum árið 1700 (tunglið lýgur ekki!). Mörg eru hefðbundnu danskvöldin, þar til danstímanum lýkur með föstugangsveislu.
Ólafsvaka er bara einu sinni á ári, en jólin eru á hverju ári, segja Færeyingar. Báðar eru þessar hátíðar bland af fornri, norrænni menningu og kristinni trú. Um Ólaf heilaga er haft eftir gömlum færeyingum, að margir segja frá honum, en hafa þó ekki séð hann. Viðlagið í Óluvu kvæði, um systur Karlamagnusar keisara, sem reyndar hét Gisele, sameinar norrænu og kristnu jólahefðirnar mjög vel:
Stígum fast á várt gólv,
sparum ei vár skó,
Guð mann ráða, hvar vær drekkum onnur jól.
Árið 1846 kvað bóndadóttir frá Hvalvík í Norðstreymoy Óluvukvæði fyrir Henriki Rung, söngmeistara Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn. Birta Helena var fædd árið 1788 og var ekkja á Kristiánshöfn.
Árið eftir lét Hammershaimb prófastur frá Steig í Sandavági í Vágum, faðir hins færeyska nútíma ritmáls, prenta Óluvukvæði í fullri lengd. Hann byggði útgáfu sína á fjórum handritum eftir heimildarmenn frá mismunandi eyjum, sem hann ritaði sjálfur niður.
Árið 1848, var áhrifamikið, sögulega séð. Á páskadag töpuðu Danir fyrir Þjóðverjum og misstu þá Slesvík. Fékk það seinna heilmikla þýðingu fyrir fullveldistöku Íslendinga 1918. Danska skáldið Carl Ploug orti mikilfenglegt þjóðernislegt ljóð „Paaskeklokken kimed‘ mildt“ með innblæstri frá Óluvukvæði. Lagið er nákvæmlega það, sem Rung skrifaði niður eftir Birtu Helenu, og var það frumflutt í Kaupmannahöfn maí 1848 á tónleikum til styrktar særðra danskra hermanna og stríðsekkjum. En 1899 birtist blaðagrein í Föringatíðindum þar sem skoðað var hver munur er á forna kvæðalagi Færeyinga og uppskrift Rungs, sem fylgir reglum nútíma evrópskri tónlist.
1871 orti ævintýramaðurinn Jón Ólafsson frá Fáskrúðsfirði, sem drakk einu sinni whisky með Grant bandaríkjaforseta, texta við lagið, og var hann í fyrsta sinn sunginn almennt á gamlárskvöld í Reykjavík sama ár: „Máninn hátt á himni skín.“
Síðar skráði Bjarni Þorsteinsson lagið á Íslandi og prentaði í Íslenskum Þjóðlögum (1906-09), og er það afbrigði af verki Rungs. Hugsanlega notaði Carl Nielsen, þjóðartónskáld Dana, afbrigðin þeirra Rungs og Bjarna í hinu mikla tónverki „En fantasierejse til Færöerne (1927),“ sem samið var í tilefni þess, að sunnbæingar frá Suðuroy, þar á meðal tveggja metra afabræður mínir í föðurætt, komu til Kaupmannahafnar til að kveða og dansa í Konunglega leikhúsinu.
Á gamlárskvöld ætla ég að hlusta á fallega textann hans Jóns Ólafssonar, staddur í Sunnbæ í Suðuroy, rétt hinumegin við sundið, með whiskyglas í hönd, og seinna um kvöldið fer ég í danshringinn kveðandi um Óluvu Pippingsdóttur með hinu ævaforna upprunalagi, þá mun renna upp hinn fallegi Hornfjarðarmáni. Með þessum fáu orðum óska ég öllum Hornfirðingum gleðilegra jóla, og frá okkur Bryndísi ómar færeyska kveðjan: „Gleðilig jól og Harrans signing í komandi ári!“
Sveinur Ísheim Tummasson
Sandbakkavegi 6