Síðastliðin ár hafið þið sýnt Ægi og okkur gríðarlegan stuðning sem við munum seint geta þakkað en þessi fátæklegu orð eru þó tilraun í þá áttina. Það er afar leitt að þurfa að tilkynna það að því miður hefur meðferðinni sem Ægir átti að byrja í í mars verið hætt. Við munum því ekki flytja til Svíþjóðar í janúar eins og til stóð og Ægir mun ekki fara í neina meðferð þar. Þessar fréttir bárust okkur gær [16. desember] eins og þruma úr heiðskíru lofti og við erum bara enn að reyna að meðtaka þær. Nú þurfum við bara aðeins að ná áttum og skoða hvaða möguleikar eru þá eftir í stöðunni. Við erum sem betur fer heppin og eigum jafnvel möguleika á öðrum meðferðum sem við getum sótt um í og það er verkefni næstu daga að fara á fullt að skoða það. Við ætlum svo sannarlega ekki að gefast upp þótt móti blási og ég er sannfærð um að við munum finna meðferð fyrir hann. Styrktarsjóðurinn mun koma sér gríðarlega vel þegar kemur að því að Ægir kemst í meðferð og erum við innilega þakklát fyrir allan stuðninginn í okkar garð. Það er alveg ótrúlegt til dæmis hve vel hefur verið tekið í fallegu jólakortin sem Ævar Þór Benediktsson vinur Ægis, rithöfundur og leikari gerði til styrktar Ægi. Þegar ég hugsa til ykkar allra og alls sem hefur verið gert fyrir Ægi þá fyllist ég auðmýkt og kærleik. Hornfirðingar hafa stórt og fallegt hjarta og allir eru svo boðnir og búnir að hjálpa honum Ægi okkar, hvort sem það eru krakkarnir í skólanum, kennararnir hans eða bara fólk sem við hittum úti í búð. Það eru einhvern veginn allir í liði með Ægi og það er dásamlegt að finna slíkan stuðning frá samfélaginu. Það hefur verið svo mikill kærleikur í kringum hann að það er hreint ótrúlegt og alls ekki sjálfgefið. Ég mun vera dugleg að birta fréttir af hvernig gengur hjá Ægi á fésbókarsíðunni stuðningur fyrir Ægi Þór Sævarsson fyrir þá sem vilja fylgjast með þessu ferli öllu saman.
Óskum ykkur öllum gleðilegra jóla
með von um farsæld og gleði ykkur
til handa á komandi ári
Jólakveðju sendum kæra
þakkir viljum við ykkur færa.
Samhug og hlýju sýnt þið hafið
Ægi ykkar örmum vafið.
Ætíð munum góðverka minnast
að fá ykkar hlýja hjarta að kynnast.
Allt hið góða megið þið hljóta
jólanna saman í friðsæld njóta.
Mínar hjartans þakkir sendi ég til ykkar allra fyrir hönd okkar fjölskyldunnar
Hulda Björk Svansdóttir