Örlítil hugvekja frá Umhverfis Suðurland

0
688

Hvernig höldum við umhverfisvæn jól?

Umhverfisvæn jól snúast meðal annars um að vera meðvitaður um áhrif neyslunnar og takmarka hana eins og hægt er. Það þýðir samt ekki að jólamaturinn þurfi að vera hafragrautur og að enginn fái jólagjafir, heldur einfaldlega að við ætlum að íhuga hvað skiptir okkur mestu máli og hvernig megi halda jól með sem bestum hætti fyrir umhverfið og okkur öll.
Enginn vill eyða löngum vinnustundum til að geta keypt jólagjafir sem engum nýtast og eru jafnvel gleymdar strax eftir hátíðina…eða hvað?
Stefán Gíslason umhverfisstjórnunar­fræðingur hefur mikið fjallað um óþarfa, það er „eitthvað sem við þurfum raunverulega ekki“. Óþarfi hefur ekki bara neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag heldur rænir hann ákveðnum gæðum af fólki. Tími er það eina sem við eigum þegar við fæðumst og er jafnframt það sem við höfum til þess að skipta út fyrir peninga eða annað sem við teljum að skipti okkur máli. Samkvæmt útreikningum Stefáns tekur það meðal Íslendinginn um það bil einn vinnudag að vinna sér inn um 20 þúsund krónur. Óþarfi sem kostar svipaða upphæð má því verðmeta á heilan vinnudag úr lífi viðkomandi. Þegar við skiptum tímanum út fyrir óþarfa hljóta það því að flokkast sem slæm viðskipti.
Gjafir sem ekki nýtast viðtakandanum eru óþarfi. Í stað þess að kaupa slíkar gjafir með tilheyrandi fórn á tíma, mætti gefa upplifanir, heimtilbúnar jólagjafir eða annað sem hefur meira gildi. Þetta eru auk þess oftast dýrmætustu gjafirnar og veita á endanum mestu hamingjuna.

Hvernig virkar umhverfisvæn innkaupastefna?

Það er jafnframt mikilvæg að gera sér grein fyrir að allar vörur sem framleiddar eru hafa einhver áhrif. Við ættum að kynna okkur samfélagsaðstæður og umhverfisáhrif varanna sem við erum að versla og upprunaland þeirra og reyna að skoða hver raunkostnaður hennar er ef litið er til umhverfisþátta.
Ein leið til þess að ná markmiðum um umhverfisvæn jól er að setja sér innkaupastefnu sem gengur út á meðvituð innkaup. Svoleiðis stefna tekur meðal annars til þátta eins og að versla staðbundið, velja umhverfisvænasta kostinn hverju sinni, kaupa lífrænt, kaupa vörur sem vottaðar eru sem „sanngjörn viðskipti“ (e.fair trade), forðast einnota vörur og plast, gefa „sannar gjafir“ sem styrkja í leiðinni góðgerðarsamtök og gefa upplifun og/eða samveru.
Til þess að tryggja ljúfa aðventu skulum við því leggja áherslu á að njóta í stað þess að neyta.