Í liðinni viku var dagur íslenskrar náttúru (16. september) og alþjóðlegi hreinsunardagurinn .(21. september) og að auki stendur nú plastlaus september sem hæst. Í tilefni þess stóðu Umhverfissamtök Austur-Skaftafellssýslu fyrir hreinsun á Suðurfjörum síðastliðin sunnudag. Veðurspáin var ekki hagstæð fyrir helgina en það rættist heldur úr henni og fengu þáttakendur hlýjan og mildan dag, en þó með hressilegum regngusum inn á milli. Í þetta skiptið mættu 24 sjálfboðaliðar vaskir til verks í fjöruna og héldu áfram þar sem frá var horfið síðasta vor, en þá hreinsuðu yfir 100 manns vestasta hluta Suðurfjöru. Þegar mætt var í fjöruna var auðvelt að greina hvar hreinsun tók enda í vor og þaðan var haldið áfram í austurátt. Nú hefur tæplega helmingur Suðurfjöru verið hreinsaður.
Unnið var af kappi í um þrjár klukkustundir og náðist að hreinsa tæpa þrjá kílómetra af ströndinni. Í heildina söfnuðust tæp átta tonn, en miklu munaði um að nokkrir sjálfboðaliðar höfðu tök á að mæta með vélbúnað (dráttarvél, jeppa og kerrur) sem nauðsynlegur er til að ná upp og ferja það mikla magn af úrgangi sem leynist í fjörunni. Án þess hefði verkefnið verið ógerlegt og þökkum við þeim sérstaklega fyrir það. Íslenska gámafélagið lánaði og ferjaði gáma að fjörunni og að lokinni hreinsun bauð Nettó og kvenfélagið Eining upp á kræsingar á Brunnhól. Þar var boðið upp á ilmandi diskósúpu og töfrabrauð, útbúið úr afgangshráefni sem annars hefði verið fargað.
Umhverfissamtökin vilja nota tækifærið og þakka öllum þeim aðilum sem komu að hreinsuninni kærlega fyrir þeirra framlag og að sjálfsögðu fyrir komuna. Við skemmtum okkur konunglega saman og hlökkum til næstu hreinsunar í vor.