Þekkingarsetur, uppbyggjandi afl í dreifðum byggðum

0
747

Nýheimar þekkingarsetur leggur í starfi sínu áherslu á samstarfsverkefni sem þjónað geta samfélaginu. Gott samstarf er milli stofnananna tólf sem eiga aðild að Nýheimum þekkingarsetri, einnig milli sveitarfélagsins og þekkingarsetursins og unnið er í því að styrkja tengsl við álíka stofnanir víðar um land sem og erlendis. Fátt er Nýheimum óviðkomandi en öll verkefni eru valin út frá mögulegum ávinningum fyrir samfélagið okkar.
KNOW HUBs Þekkingarsetur, uppbyggjandi afl í dreifðum byggðum er samstarfsverkefni milli Nýheima þekkingarseturs og stofnana víða í Evrópu. Verkefnið er til tveggja ára en það hlaut styrk frá Erasmus+ árið 2018 og lýkur síðla árs 2020.
KNOW HUBs leggur áherslu á hvernig þekkingarsetur geta þróað starfsemi sína með hliðsjón af þörfum og kröfum samfélaga í dreifðum byggðum. Nálgun verkefnisins byggir á því að nýta hugmyndafræði um þekkingarsetur sem 3M: miðpunkt, miðlara, mótor í þeim tilgangi að auka hæfni setra til að vinna nærsamfélagi sínu til hagsbóta. Verkefnið fjallar um hvernig setur geta þróað starfsemi sína til að verða leiðandi afl í samfélaginu; hvati fyrir þá sem þess þurfa; stuðlað að samstarfi og verið miðpunktur þangað sem allir geta leitað.
Fyrir nokkru var í tengslum við verkefnið haldinn rýnihópur í Nýheimum þar sem íbúar greindu hvaða hæfni setrið og starfsfólk þess þarf að búa yfir til að verða 3M fyrir okkar samfélag. Niðurstöður þess voru að mikilvægt sé að leggja áherslu á rannsóknarhæfni, stjórnunar- og skipulagshæfni og miðlunar- og markaðshæfni. Álíka rýnihópar voru framkvæmdir í öllum samstarfslöndunum og mótaði hvert setur kennsluefni fyrir sín áhersluatriði. Kennsluefnið verður svo efniviður handbókar sem gefin verður út að verkefninu loknu.
Hugrún Harpa og Kristín Vala komu nýlega frá Írlandi þar sem þær tóku þátt í námskeiði og verkefnafundi KNOW HUBs. Á námskeiðinu var handbókin prófuð með fulltrúum allra samstarfsaðila. Á döfinni er að þróa námsefnið enn frekar og hvert setur staðfærir efnið fyrir sitt samfélag og miðlar. Með það í huga hvernig verkefnið geti nýst samfélaginu okkar sem best vinnur Nýheimar þekkingarsetur að þróun valdeflandi námskeiðs fyrir ungt fólk, vonum við að það muni vekja áhuga og nýtast þátttakendum til framtíðar.