Fyrr í sumar fóru feðgarnir Gunnar Pálmi Pétursson, Jón Vilberg og Pálmi Freyr Gunnarsynir norður til Akureyrar til að sýna nýjan bíl sem þeir höfðu smíðað. Bíllinn fékk fyrstu verðlaun sem athyglisverðasti jeppinn á bílasýningu Bílaklúbbs Akureyrar þann 17. júní síðastliðinn. Eystrahorn hafði samband við þá feðga til að segja örlítið frá þessu verkefni.
“Hugmyndin að þessum bíl fæddist eftir að við feðgar höfðum fylgst með allskonar tilraunum manna við að reyna að smíða hinn fullkomna fjallabíl, ætlaðan fyrir 12-19 farþega sem hægt væri að nota á jöklum og við aðrar krefjandi aðstæður. Okkar hugmynd gekk út á að sameina kosti tveggja bíla í einn ofurbíl.”
Keyptir voru tveir nýir bílar til verksins, 2017 Dodge Ram 5500 dráttarbíll með einföldu húsi og Benz Sprinter 519, fullbúinn frá Bus PL í Póllandi, með öllum hugsanlegum lúxus fyrir 19 farþega.
Í stuttu máli var burðargetan, styrkurinn og vélaraflið notað frá Raminum, stýrishúsið tekið af og Benz rútan sett ofan á og var þá áður búið að fjarlægja vél og hjólabúnað rútunnar. Undir bílinn voru settar Unimog herhásingar með úrhleypibúnaði fyrir dekkin sem geta verið allt að 54 tommur.
“Að sameina þessa tvo ólíku bíla var auðvitað ein stór áskorun. Samsetning bílanna, rafkerfi, drif og fjöðrunarkerfi o.s.frv. Verkið tók 18 mánuði og fóru ríflega 3 þúsund vinnustundir í smíðina sem unnin var eingöngu af okkur feðgum og engin vinna var aðkeypt.
Heildarkostnaður við smíðina er rúmlega 54 milljónir, (2 bílar, aðkeypt efni og vinna )”
Helstu mál og tölur:
Eigin þyngd 6100 kg og heildarburður mest 8500 kg, farþegafjöldi 19+2, Vél: Cummins 6,7 lítra, 575 hestöfl, 6 gíra skipting ásamt skriðgír, Unimog hásingar, dekkjastærð 50-54 tommur.
Eigandi bílsins er fyrirtæki þeirra feðga, Ævintýramenn ehf á Höfn.
Gunnar Pálmi Pétursson
Jón Vilberg Gunnarsson
Pálmi Freyr Gunnarsson