Úrgangur í auðlind

0
913
Vinningshafarnir

Eins manns rusl er annars fjársjóður – það sem skilur að er hugmyndaauðgi þess sem á efninu heldur.
Laugardaginn 15.júní var tilkynnt um úrslit keppninnar Úrgangur í auðlind, sem haldin var á vegum Umhverfis Suðurland í samstarfi við hátíðina „Blóm í bæ“ í Hveragerði og Listasafn Árnesinga.
Í keppnina bárust 14 ólíkar en virkilega áhugaverðar tillögur af öllum toga; listaverk og hönnunarvörur og hugvitssamar lausnir tengdar umhverfismálum á einn eða annan hátt. Allar áttu þær það þó sameiginlegt að leita leiða til þess að endurnýta hráefni sem annars væri hent. Í framhaldinu fékk svo dómnefndin það flókna verkefni að velja einhverja úr hópnum til þess að þiggja verðlaun – enda er það eðli keppna.
Niðurstaðan varð á endanum sú að verðlauna þrjá þátttakendur fyrir sitt framlag.
„Sprotinn“ var veittur Sigrúnu Ó. Sigurðardóttur fyrir verk sín „Unnið úr afgöngum“ þar sem hún leitast við að skapa bæði list og nytja hluti úr alls kyns afgöngum. Í verkum hennar má finna sprengikraft tjáningar sem áhugavert verður að sjá hvernig hún muni þróa áfram.
„Samfélagsverðlaunin“ voru veitt Merði G. Ottesen fyrir Þróunarverkefnið Töfrastaði en félagið hefur staðið að námskeiðum í vistrækt og samfélagsuppbyggingu með áherslu á nýtingu auðlinda og hönnun þar sem siðferði er haft að leiðarljósi.
„Umhverfisverðlaunin“, sem jafnframt voru aðal verðlaun keppninnar hlaut Ragnar K. Gestsson fyrir verkefnið Orðaskjöldur en þar er komin hugvitsöm leið til þess að endurnýta og græða upp, hvortveggja til góðs fyrir umhverfið. Hugmyndin gengur út á að útbúa úr einföldum pappamassa hlífðarskjöld fyrir plöntur, sem settur er í kring um þær við gróðursetningu. Skjöldurinn kemur í veg fyrir að plantan kafni í illgresi en er jafnframt góð leið til þess að endurnýta þann pappír sem til fellur. Aðferðin er það einföld að hver sem hefur áhuga á skógrækt getur nýtt sér hana við verkið.
Að lokum vilja aðstandendur keppninnar þakka öllum þeim sem sendu inn tillögur og hvetur þá til þess að halda áfram að vinna að grænum og umhverfisvænum verkefnum.