Í athyglisverðri forsíðugrein í Eystrahorni 9. maí s.l. kynnir Árdís Erna Halldórsdóttir, atvinnu- og ferðamálafulltrúi þátttöku Sveitafélagsins Hornafjarðar, í norrænu samvinnuverkefni sem fjallar um vistvænan ferðamáta á göngu- og reiðhjólastígum ásamt auknu íbúalýðræði í litlum og meðalstórum bæjum á Norðurlöndum.
Þegar gengið var til sameiningar Hafnar og Nesjahrepps á sínum tíma kom fram hugmynd um að gera góðan göngu- og hjólastíg með götulýsingu milli Nesjahverfis og Hafnar. Þessi hugmynd naut fylgis á sínum tíma þótt hún hafi ekki komið til framkvæmda. Er ekki kominn tími til að dusta af henni rykið, einmitt nú, af þessu tilefni ? Ég sé reyndar í grein Árdísar að höfuð áhersla vinnuhópsins hjá bænum skal lögð á mótun skipulags um vistvænan ferðamáta á Höfn. Eru áformin um sameiginlegt sveitarfélag ekki lengur í gildi ?
Í annan stað voru umræður í gangi um nýja brú og veg yfir Hornafjarðarfljót, ekkert sérstaklega vegna sameiningar sveitarfélaga, fremur sem hluti af viðvarandi umræðu í A-Skaftafellssýslu í meira en hálfa öld vegna þrotlausra verkefna í samgöngumálum. Mér er ofarlega í minni, frá þessum tíma hugmyndir fólks á Höfn um leiðir til að fá hringveginn inn í og gegnum Höfn með aukinn ávinning af þjónustu við umrennandi ferðafólk í huga. Til að svo mætti verða þurfti þjóðvegurinn að liggja um Suðurfjörur, brú frá Melatanga yfir í Ósland með vegi inn á Víkurbraut eða frá Óslandi að Leiðarhöfða meðfram Sandbakka inná þjóðveg yfir Stekkakeldu. Þessar hugmyndir hlutu ekki brautargengi, en hugsunin um tengingu hins nýja vegar sem næst Höfn birtist skýrt í áforminu um tengingu við austurlandsveg við Hafnarnes. Með því er valin lakasta leiðin fyrir nýjan veg yfir Fljótin varðandi landspjöll á umhverfi og landslagi ásamt eignaupptöku landeigenda, með lítilsháttar styttingu hringvegar með miklum kostnaðarauka af opinberu fé umfram ýmsar aðrar leiðir. Sveitarstjórnin gengur hér óhikað gegn hagsmunum margra íbúa, bænda/landeigenda og okkar sem metum mikils landslag, lífríki og náttúru staðarins almennt án mikilla hagsmuna með tilliti til samganga.
Í grein Árdísar frá 9. maí s.l. eru kynnt áform bæjarstjórnar um aukið íbúalýðræði í sveitarfélaginu. Virkt íbúalýðræði var löngu fundið upp og tekið í notkun í A-Skaftafellssýslu ekki síst í forgangsröðun opinberra framkvæmda t.d. samgöngumálumá síðustu öld. Svokallaðir bændafundir, árleg þing, öllum opin, með 30-40 tilnefndum fulltrúum úr öllum sveitarfélögunum, 6 að tölu, komu saman og fjölluðu um brýnustu framfaramál héraðsins, samgöngu-heilbrigðis- og menningarmál ásamt fleiru. Þessu skiluðu fundirnir í tillögum frá viðkomandi nefndum á 2-3 dögum eftir atvikum. Almennir fundir reynast ónýt tæki til að auka og virkja íbúalýðræði, enda sækja þá fáir alla jafna. Í grein Árdísar boðar hún sérhannaða spurningakönnun til að auka almenna aðkomu að skipulagsferlinu um vistvænar samgöngur og aukið íbúalýðræði.Ég hefði viljað sjá hnitmiðaðar sérhannaðar spurningakannanir til að virkja íbúalýðræði við ákvarðanatöku og nýjar brýr og veg yfir Hornafjarðarfljót. Mér ofbýður kæruleysi/úrræðaleysi svokallaðrar bæjarstjórnar Hornafjarðar við undirbúning þessara vegaframkvæmda.
Stórnsýslan klikkar og hefur ekki annað en valdníðslu að bjóða. Hreppsnefnd Hafnar var ekki verri en hver önnur í hreppunum hér fyrir sameiningu þeirra. Hún veldur hinsvegar ekki núverandi hlutverki sínu sem Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar, en er föst í gömlum hjólförum sem Hreppsnefnd Hafnarhrepps þegar síst skyldi og mest reynir á.
Sævar Kr. Jónsson