Fjallamennskunám FAS

0
2154
Nemendur og kennarar við upphaf Gönguferðar 1. Mynd: Eyjólfur Guðmundsson

Fjallamennskunám FAS hefur verið í fullum gangi það sem af er vetri og hafa nemendur tekið þátt í sex verklegum námskeiðum á vegum skólans auk þess að sinna öðrum áföngum námsbrautarinnar sem kenndir eru í fjarkennslu. Tólf nemendur eru skráðir í einn eða fleiri áfanga fjallamennskunámsins þennan veturinn og þar af eru sjö í fullu námi.
Á þessari önn voru kenndir verklegu áfangarnir Gönguferðir, Klettaklifur, Jöklaferðir, bóklega námskeiðið Skipulag ferða- og hópastjórnun og svo áfanginn Ferðir á eigin vegum þar sem nemendur eiga að skipuleggja og fara í 10 dagsferðir. Í desember og janúar meðan dagurinn er hvað stystur liggur verklega kennslan niðri og í stað hennar kemur áfanginn Veður- og jöklafræði.
Verklegu áföngunum er skipt upp í tvö námskeið sem kennd eru í sitthvoru lagi og telja samtals níu kennsludaga.
Námið hófst í síðustu viku ágústmánaðar með Gönguferð 1 þar sem nemendur lærðu undirstöðuatriðin í ferðamennsku, tjaldlíf til fjalla og rötun með áttavita og korti. Farið var í þriggja daga ferð þar sem gengið var um Laxárdal í Nesjum og yfir í Endalausadal í Lóni. Gist var í tvær nætur á leiðinni og veðrið lék við hópinn.
Klettaklifur 1 tók við í september. Þar var áherslan á að læra undirstöðuatriðin í klettaklifri og fór kennslan fram á klifursvæðinu við Hnappavallahamra í Öræfum.
Færa þurfti eitt námskeið frá september yfir í október, sem gerði það að verkum að þrjú námskeið voru kennd þann mánuðinn. Fyrsta vikan byrjaði á Klettaklifri 2 þar sem áhersla var lögð á að læra fleiri tegundir klettaklifurs og bjargsigs. Gaman er að segja frá því að kennslan fór fram í fjórum sveitum sýslunnar, þrátt fyrir að megnið af henni hafi farið fram á klettaklifursvæðunum við Vestrahorn og Hnappavallahamra.
Vikuna á eftir var kominn tími á Gönguferð 2. Markmið þess námskeiðs var að kenna nemendum rötun með GPS tækjum og GPS forritum í síma auk þess sem einn dagur fór í að læra að vaða ár.
Gengið var í kringum Reyðarártind í Lóni á tveimur dögum og gist eina nótt í Össurárdal. Veður var hið versta um nóttina og seinni daginn, alvöru slagveðursrigning sem gerði ferðina ævintýralegri. Síðasti dagur námskeiðsins var svo nýttur í að læra að vaða ár. Rigningin dagana á undan olli því að vatnsmagn í ám hafði aukist verulega sem gerði það að verkum að ekki þurfti að fara lengra en í Laxá í Nesjum til að finna kjöraðstæður til æfinga.
Í lok október hélt hópurinn í Öræfin í Jöklaferð 1 með það að markmiði að læra undirstöðuatriðin í skriðjöklaferðamennsku og ísklifri. Farið var á Falljökul og Skaftafellsjökul og rjómablíða var allt námskeiðið.
Aðra vikuna í nóvember var svo komið að lokaferð annarinnar sem var Jöklaferð 2. Farið var aftur í Öræfin og að þessu sinni var áherslan á að læra undirstöðuatriðin í ferðamennsku á hájöklum (t.d. Hvannadalshnúk), bjarga félaga upp úr sprungu og einn dagur fór í að læra íshellaferðamennsku. Farið var á Falljökul og Breiðamerkurjökul.
Áhugasamir geta fundið fleiri myndir og ítarlegri samantektir á Facebook síðunni Fjallamennskunám FAS, eða á heimasíðu skólans.
Að lokum viljum við koma á framfæri kærum þökkum til landeiganda og annarra sem hjálpað hafa til við framkvæmd ferðanna síðustu mánuði.

Sigurður Ragnarsson
Kennari í fjallamennskunámi FAS