Hótel Skaftafell ræðst í markvissa uppbyggingu mannauðs

0
1998
Margrét Gauja Magnúsdóttir hótelstýra, Eyjólfur Sturlaugsson framkvæmdastjóri Fræðslunetsins og Anna María Ragnarsdóttir hóteleigandi undirrita samninga.

Hótel Skaftafell, sem er vinsælt fjölskyldurekið hótel í Öræfum, er sannarlega fjölmennur vinnustaður. Alls vinna á hótelinu og í söluskála þess milli 50 – 60 manns og hefur mannauður ávallt verið í fyrirrúmi í rekstri þess. Í því ljósi er nú ráðist í markvissa uppbyggingu þekkingar og hæfni starfsfólksins með samningum við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og starfsmenntasjóðinn Landsmennt. Markmið fyrirliggjandi verkefnis er að koma símenntun og starfsþróun starfsmanna í ákveðinn farveg, auka starfsánægju og bæta þjónustu.
Verkefnið felst í því að utanaðkomandi ráðgjafi gerir þarfagreiningu á fræðsluþörfum meðal starfsmanna og skilar að henni lokinni fræðsluáætlun til stjórnenda. Fræðsluáætlunin nær til tveggja ára og meðan á fræðslunni stendur og að henni lokinni fer fram stöðugt mat samkvæmt árangursmælikvörðum á því hverju fræðslan skilar fyrirtækinu. Þá býðst starfsmönnum einnig viðtöl við náms- og starfsráðgjafa meðan á verkefninu stendur.
Starfsmenntasjóðurinn Landsmennt greiðir kostnað við verkefnið og hefur ráðið Fræðslunetið símenntun á Suðurlandi til að sjá um þarfagreininguna og ráðgjöfina. Verkefnið hófst formlega þann 13. nóvember síðastliðinn með undirritun samnings og fundum með stjórnendum og starfsmönnum. Gert er ráð fyrir að þarfagreiningu ljúki á næstu tveimur mánuðum og fræðslan hefjist í kjölfarið í febrúar næstkomandi.