Staða og hlutverk þekkingarsetra

0
953

Þann 13. – 14. október 2017 var haldin ráðstefna um íslenska þjóðfélagið sem bar yfirskriftina „Mannöldin“. Á ráðstefnunni voru flutt mörg og áhugaverð erindi. Eitt þeirra fjallaði um samspil þekkingarsamfélagsins og byggðaþróunar á Íslandi og í Skotlandi en í því erindi kynnti Anna Guðrún Edvardsdóttir doktorsverkefni sitt sem unnið var við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, en vörnin fór fram í lok árs 2016.
Í framhaldi af ráðstefnunni höfðu Nýheimar Þekkingarsetur, Þekkingarnet Þingeyinga og Háskólafélag Suðurlands samband við Önnu Guðrúnu um að leiða rannsóknarverkefni um stöðu og hlutverk þekkingarsetra í byggðaþróun, sem sótt hafði verið um í Byggðarannsóknasjóð árið 2017 en fengið neitun. Það varð úr að Anna Guðún vann með setrunum að nýrri umsókn sem hlaut brautargengi hjá Byggðarannsóknasjóð árið 2018 og leiðir Anna Guðrún rannsóknarverkefnið.
Sá styrkur sem hlaust mun nýtast til tveggja verkþátta af fjórum; þ.e. að taka viðtöl við aðila sem starfa á setrunum, sveitarstjórnarfólk og atvinnurekendur. Markmiðið er að leita eftir skoðunum og viðhorfum þessara aðila til stöðu og hlutverka þekkingarsetranna í þróun þeirra samfélaga sem þau starfa í. Seinni verkþátturinn er að setja upp rafræna spurningalista sem birtast munu á vef setranna/sveitarfélaganna. Markmiðið er að fá fram viðhorf og skoðanir íbúa á starfsemi þekkingarsetranna. Til þess að fá sem besta mynd af stöðunni, kostum og göllum, er góð þátttaka almennings lykilatriði. Stefnt er að því að fljótlega á nýju ári verði spurningalistinn tilbúinn og er það einlæg von og ósk okkar á setrunum að íbúar bregðist vel við og taki þátt. Tilkynning þess efnis verður send út á vef setranna og/eða sveitarfélaganna.