Sögur kvenna af jöklum og jöklabreytingum

0
1084

Næstu mánuði mun Dr. M Jackson hafa aðsetur í Nýheimum en hún er landfræðingur, jöklafræðingur og rannsakandi hjá National Geographic. M kemur frá Alaska en hún hefur áður dvalið á Höfn í tengslum við verkefni sín. Árin 2016-2017 kom hún til Hafnar í fyrsta sinn og vann þá að skrifum á bók sinni The Secret Lives of Glaciers. M vinnur nú að nýrri bók sinni sem mun segja frá upplifun og sýn kvenna, er búið hafa í nábýli við jökul, á jöklabreytingar.
Er það von hennar að horn­firskar konur á aldrinum 10–100 ára vilji deila með henni sögum sínum af jöklum og nábýli við jökla sem yrðu, meðal annars, efniviður bókarinnar. Tilgangur bókar­innar er að undirstrika og vekja athygli á einstöku sjónarhorni, reynslu, þekkingu og sögum kvenna af jöklum og jöklabreytingum á Íslandi.
Þátttakendur geta valið hvort þeir segja M sína sögu í eigin persónu eða skrifa hana niður og afhenda M. Má frásögnin vera hvort sem er á íslensku eða ensku og skiptir lengd frásagnar ekki máli, allar sögur eru verðmætar fyrir verkefnið. Sé komið í viðtal er miðað við að það taki ekki lengri tíma en 1-2 klukkustundir. M mun svo setja frásagnirnar saman í ritstýrða bók sem verður aðgengileg öllum.
M er sérstaklega áhugasöm um að miðla sögum heima­fólks af jöklum og vonast til að sem flestir vilji deila
sögum sínum af því hvernig það er að búa í nágrenni jökla, hvernig jöklar hafa áhrif á líf þeirra og hvernig heimamenn sjá framtíð jöklanna.

Hugrún Harpa Reynisdóttir for­stöðumaður Nýheima þekkingarseturs mun vera M til aðstoðar í verkefninu. Ef þú hefur áhuga á að taka þátt, vita meira um verkefnið eða vilt stinga upp á einhverjum sem gæti lumað á góðum sögum vinsamlegast hafðu samband við Dr. M Jackson eða Hugrúnu Hörpu.

Virðingarfyllst
Dr. M Jackson:
m@drmjackson.com og
Hugrún Harpa: 470-8088 eða hugrunharpa@nyheimar.is