Alþjóðlegur dagur Alzheimer

0
2132

Þann 21. september er alþjóðlegur dagur Alzheimer. Hann er haldinn hátíðlegur hér á Íslandi með fræðslu til tengla samtakanna sem starfandi eru víðsvegar um landsbyggðina. Hér í Hornafirði erum við tenglar undirrituð sem fagaðili og Arna Ósk Harðardóttir, fulltrúi aðstandenda. Okkar tenglastarf felst í að leitast eftir og fá fræðslu frá samtökunum. Með meiri umræðu og fræðslu getum við auðveldað sjúkdómsferlið bæði þeim sem veikjast og aðstandendum. Í dag eigum við gott samstarf við starfsfólk Alzheimersamtakanna í Reykjavík. Það er stöðug þróun og þekking varðandi hve miklu máli skiptir að einstaklingurinn fái rétta greiningu sem fyrst í sínu sjúkdómsferli. Það sem við viljum sjá í framtíðinni er að heilabilun hverskonar verði ekki feimnismál einstaklingsins og fjölskyldunnar heldur að einstaklingurinn geti átt gott og öruggt líf á sínu heimili þrátt fyrir veikindin. Mörg úrræði eru til en við eigum eftir að innleiða þau í auknum mæli á einkaheimilum. Þar má til dæmis nefna rafrænan samskiptamiðill sem kallast Memaxi og er eins konar dagbók aðstandenda og hins veika.
Fyrsta Alzheimerkaffi vetrarins hér á Höfn verður haldið mánudaginn 24. september í Ekrusalnum að Víkurbraut 30 kl. 17:00. Þar mun Líney Úlfarsdóttir, öldrunarsálfræðingur á Þjónustumiðstöð Laugardals, Háaleitis og Bústaða í Reykjavík flytja erindið Geðheilbrigði aldraðra. Boðið verður upp á kaffi og bakkelsi. Í lokin er samsöngur venju samkvæmt. Kaffigjald er 500 kr. Allir eru velkomnir, ungir sem aldnir eru hvattir til að mæta og fræðast um það sem skiptir okkur öll máli á einhvern hátt.
Undirrituð vill einnig þakka ómetanlegan stuðning sem hlaupahópurinn Halló Hornafjörður fékk 18. ágúst síðastliðinn Í Reykjavíkurmaraþoninu. Í þessum hópi voru öflugir hlauparar sem söfnuðu hvorki meira né minna en 432.000 krónum. Ég er svo þakklát ykkur öllum fyrir hve þið léttið okkur starfið því með peningum verður allt eða allavega margt auðveldara í tenglastarfinu. Það er deginum ljósara að með þessum stuðningi verður okkur Örnu mun auðveldara að sækja hverskonar fræðslu og miðla henni áfram um nærsamfélagið.
Nú hvet ég alla sem hafa áhuga að fara að æfa sig í að hlaupa smá og vera með í þessum flotta hlaupahópi (að mínu mati flottasta) í næsta Reykjavíkurmaraþoni. Eitt af því skemmtilegra sem ég geri sem tengill Alzheimersamtakana er að hlaupa til góðs. Það er svo létt að skottast í mark vitandi hve miklu fjármagni maður er að skila til góðs málefnis.

Sjáumst hress í Ekrusalnum Mánudagurinn 24. september kl.16:30.

Þorbjörg Helgadóttir40269368_1051609391686094_4716168291972808704_n
Félagsliði á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði og
tengill Alzheimersamtakanna á Höfn í Hornafirði.