Kids save lives á Höfn

0
1520

Fimmta apríl 2017 fórum við af stað með verkefnið KIDS SAVE LIVES. Þetta var í fyrsta sinn sem við keyrum þetta verkefni hér á Höfn og einnig í fyrsta sinn sem það er gert á Íslandi. Fenginn var styrkur frá bæjarfélaginu fyrir kaupum á 30 dúkkum, svo hægt væri að kenna heilum bekk í einu, annars hefur þetta verið fjármagnað og unnið af björgunarfélaginu í sjálfboðavinnu.
Kjarni þessa verkefnis er að kenna börnum frá 12 ára aldri endurlífgun árlega, helst sem hluta af skólaskyldunni. Með þessu stuðlum við að því að fleiri kunni rétt viðbrögð þegar á reynir. Við kennum börnunum handtökin og hvernig skal bregðast rétt við. Áhugi þeirra smitar út frá sér til þeirra sem eru í þeirra nánasta umhverfi og vonandi ýtir það við þeim fullorðnu að skella sér á námskeið.
Við völdum að fá Unglingadeildina Brand inn í þetta verkefni, þar sem það hefur oft gefið betri árangur ef jafningjar sjá um kennsluna. Krakkarnir í unglingadeildinni eiga auðvelt með að ná til skólakrakkanna og útskýra afhverju þeim finnst það vera mikilvægt að kunna endurlífgun. Við leggjum mikla áherslu á það, að 70% af öllum hjartaáföllum gerast heima hjá fólki, og þar af leiðandi eru þau að læra endurlífgun til að bjarga sínum nánustu en ekki bara Pétri og Páli úti í bæ.
Endurlífgunarkennsla hefur verið stunduð í grunnskólum í Danmörku í þónokkur ár og er nú orðin hluti af skólaskyldunni. Fljótlega fór að bera á því í Danmörku að fleiri voru að fá viðeigandi aðstoð eftir hjartaáfall/stopp og þegar tölfræðin var skoðuð kom í ljós að það voru 50 % fleiri. Þessi árangur er hreint ótrúlegur og sjaldgæft að sjá jafn afgerandi tölur í læknisfræðinni.
Í ár höfum við tekið verkefnið lengra og ætlum ekki að takmarka það við skólastofuna. Við höfum hitt börnin í sjöunda bekk og kennt þeim handtökin. Foreldrar þeirra eru vonandi orðin vel æfð í endurlífgun, þar sem við sendum börnin heim með dúkkurnar og lögðum til að þau myndu nýta þær til að kenna sínum nánustu í heila viku. Nú þegar höfum við frétt víða, að þessu hefur verið vel tekið og börnin jafnvel lagt á sig ferðalag með dúkkuna til að kenna enn fleirum. Í vikunni munum við hitta sjöunda bekk aftur, heyra hvernig gekk og verðlauna þau fyrir áragurinn. Munum svo gera hið sama með áttunda og níunda bekk í kjölfarið. Við viljum biðja foreldra um að hjálpa börnunum að passa dúkkurnar og muna eftir að taka þær með í skólann á miðvikudögum, því við viljum svo gjarnan halda þessu verkefni áfram.
Ef þið haldið að tíundi bekkur sé undanskilinn, þá er það alls ekki rétt. Þau fá fjögurra tíma skyndihjálparnámskeið í boði Rauðakrossdeildar Hornafjarðar í maí.
Við vonum að þetta verði árlegur viðburður hér á Hornafirði um ókomna tíð, við munum a.m.k. leggja okkar að mörkum til þess.
Draumur okkar er að sjálfsögðu að endurlífgun verði á endanum gerð að skólaskyldu á Íslandi öllu.

Fyrir hönd Björgunarfélags Hornafjarðar
Elín Freyja Hauksdóttir