Tækjabúnaður á HSU Hornafirði endurnýjaður

0
833

Nýr búnaður var tekinn í notkun á dögunum á heilbrigðisstofnuninni. Í nóvember á síðasta ári fór stofnunin af stað með söfnun fyrir tveimur nýjum síritum og hjartastuðtæki. Söfnunin gekk framar vonum og var gengið frá pöntun á tækjunum í janúar. Skinney Þinganes gaf einn sírita að verðmæti 1.095.695 kr., einn einstaklingur gaf 1.000.000 kr. í söfnunina og fleiri lögðu verkefninu lið með peningagjöfum. Gjafa- og minningasjóður Skjólgarðs tók þátt í verkefninu og styrkti kaupin eða sem samsvarar kaupum á einum sírita. Búnaðurinn er nú kominn í notkun og hefur sannað gildi sitt nú þegar. Annar síritinn og hjartastuðtækið eru staðsett á heilsugæslunni og hinn síritinn er notaður á sjúkrasviði Skjólgarðs en reglulega eru lagðir þar inn veikir einstaklingar sem þarf að fylgjast náið með. Það er ómetanlegt að finna fyrir stuðningi íbúa og fyrirtækja í samfélaginu þegar kemur að endurnýjun tækja en fjárframlög til stofnunarinnar duga ekki til endurnýjunar á stærri tækjum. Við viljum færa öllum þeim sem styrktu kaup þessara tækja kærar þakkir fyrir stuðninginn!