Höldum áfram veginn

0
1385

3.framboðið er óháð framboð skipað fólki með fjölbreyttar skoðanir sem á það sameiginlegt að vilja sjá öflugt samfélag til framtíðar í Sveitarfélaginu Hornafirði. 3.framboðið hefur frá 2014 starfað í farsælum meirihluta með Sjálfstæðisflokki og átt gott samstarf við minnihluta Framsóknarflokks. Rekstur sveitarfélagsins gengur afar vel, sem gefur færi á að efla grunnþjónustu og takast á við ný verkefni.
Sveitarfélagið er annar stærsti vinnuveitandinn í samfélaginu okkar og daglegur rekstur þess er umfangsmikill. Starfsmenn eru um 250, flestir í fullu starfi. Sveitarfélagið rekur meðal annars leik- og grunnskóla á Höfn og í Hofgarði, tónlistarskóla og félagsmiðstöð, sinnir félagsþjónustu fyrir aldraða og fatlaða, rekur bókasafn og menningarmiðstöð, rekur áhaldahús, er með samstarfssamning við ríkið um rekstur heilbrigðisþjónustu, sér um skipulagsmál, byggingaeftirlit, sorpmál og veitur, rekur íþróttamannvirki og höfn. Við erum heppin með starfsfólk sveitarfélagsins, þar er mikill mannauður sem sinnir sínum störfum í margvíslegri þjónustu við okkur hin.
Fyrir utan daglegan rekstur nærþjónustunnar þá hafa stærstu málefni á kjörtímabilinu verið; fráveitumál í þéttbýlinu á Höfn og í Nesjum, sameining og bygging nýs leikskóla, viðhald á Sindrabæ, Ráðhúsi og Vöruhúsi og uppbygging leiguíbúða á Höfn. Gerðar voru endurbætur á lóð og undirbúningur er á fullu skriði að koma upp húsnæði fyrir starfsfólk leik- og grunnskólans í Hofgarði. Ærslabelgir voru settir upp á Höfn, í Nesjum og Öræfum sem stuðla að hreyfingu fyrir ungmenni, ásamt Frisbie-velli við tjaldsvæðið á Höfn. Mikilvæg skref hafa verið tekin í sorpmálum með því að lífrænt efni er nú flokkað sérstaklega, sem hvetur til meiri flokkunar. Sömuleiðis er búið að samþykkja umferðaröryggisáætlun og fjallskilasamþykkt. Þetta eru mál sem hafa verið umdeild og lengi í deiglunni, en sýna að 3.framboðið er óhrætt við að taka á stórum málum og leiða þau áfram.
Mörg baráttumál í samskiptum við ríkið hafa verið fyrirferðarmikil. Nægir þar að nefna fyrirhugaða byggingu nýs hjúkrunarheimilis, nýjan veg yfir Hornafjörð, framlenging samnings um heilbrigðisþjónustu og kaup ríkisins á einni helstu náttúruperlu Austur-Skaftafellsýslu.
Í þessari stuttu grein verður ekki farið yfir öll mál sem unnist hafa á kjörtímabilinu. Eitt er víst að mörg verkefni eru óunnin og bíða þess að tekið verði á þeim. Vonandi tekst okkur á komandi vikum fram að kosningum að eiga gott samtal við kjósendur um málefnin sem brenna á íbúum. Á lista 3.framboðsins er gott fólk með ólíkan bakgrunn og reynslu sem vill starfa fyrir ykkur öll með jákvæðni, metnað og kraft að leiðarljósi.
Sæmundur Helgason, 1. maður á lista 3.framboðsins