Leikskólinn Sjónarhóll

0
2144

Í ágúst sl. hóf verktakafyrirtækið Karlsbrekka ehf. byggingu nýs leikskóla við Kirkjubraut. Leikskólinn hefur hlotið nafnið Sjónarhóll og voru þrjú hönnunarfyrirtæki í samstarfi um hönnun hans; Arkþing ehf., Mannvit verkfræðistofa og Landhönnun slf.
Á meðan beðið er eftir nýju húsi er starfsemi leikskólans öll á Sjónarhóli við Víkurbraut þar sem bráðabirgðahúsnæði, sem gengur undir nafninu hvíta húsið, hefur verið komið fyrir. Í byrjun var hljóðvist í hvíta húsinu algerlega óviðunandi en úr henni hefur verið bætt með öllum tiltækum ráðum, svo sem mottum á gólf, þykkum gardínum og sérhönnuðum hljóðísogsplötum svo eitthvað sé nefnt.
Áður en leikskólinn fór í sumarfrí sl. sumar höfðu foreldrar allra barna sem fædd voru 2014 og eldri fengið leikskólavist fyrir börnin sín en hluta barna fædd 2015 og 2016 var ekki hægt að veita skólavist vegna þess að húsnæðið rúmar ekki fleiri börn.
Leikskólastarf hér eins og annars staðar á landinu líður fyrir skort á leikskólakennurum. Að því undanskildu hefur tekist að manna stöður við leikskólann og er mönnun þar nú komin í jafnvægi. Af 38 starfsmönnum eru tólf starfsmenn með upp­eldismenntun á háskólastigi, sjö af þeim eru leikskólakennarar, auk þess eru þrír starfsmenn í leik­skólakennaranámi. Starf leik­skólans er skipu­lagt í sam­­ræmi við aðal­­nám­skrá leik­­skóla og mennta­stefnu sveitar­­félagsins http://www.hornafjordur.is/media/stefnur/Menntastefna_web.pdf. Í daglegu uppeldisstarfi með börnunum verður hugmyndafræði upp­byggingarstefnunnar Uppeldi til ábyrgðar lögð til grundvallar ásamt áherslum heilsueflandi leikskóla. Starfsmannahópurinn hefur setið fyrstu fræðslufundina um þessar stefnur og stjórnendur leikskólans munu skipuleggja símenntunaráætlun fyrir starfsmenn, þar sem þeir fá fræðslu um að koma til móts við fjölbreyttar þarfir barna í leikskóla. .
Framkvæmdum við nýjan Sjónarhól miðar vel, húsið er orðið fokhelt og nánast er búið að setja upp alla veggi innanhúss. Tímaáætlanir verktakans hafa staðist hingað til og ekkert sem bendir til annars en opnaður verði nýr Sjónarhóll, sex deilda leikskóli í ágúst 2018.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum verður aðbúnaður og starfsaðstæður leikskólabarna og starfsfólks í nýja leik­skólanum mun betri en nú er. Hver deild er hugsuð sem sjálfstæð eining, deildarnar eru rúmgóðar með sérinngangi inn á hverja fyrir sig. Þar sem húsið er stórt með löngum göngum er hver deild með sérstökum neyðarútgöngudyrum beint út á trépall í garðinum. Þessar dyr eru líka hugsaðar til að opna út í góðu veðri, að börnin geti notað trépallinn til ýmissa leikja og gengið út og inn. Gert er ráð fyrir sérstöku rými fyrir stoðþjónustu, tónlistarnám og bókasafn. Í miðju húsinu er 56 m2 salur til fjölbreyttra nota. Starfsaðstaða stjórnenda og starfsmanna er í sér rými í húsinu aðskilin frá deildum. Aðalaðkoman að skólanum verður frá Víkurbraut en starfsfólki verður beint að aðkomu við Kirkjubraut.
Í leikskólanum verður starfrækt nútíma iðnaðareldhús með tilheyrandi búnaði. Lögð verður áhersla á að vinna mat frá grunni, út frá gildum heilsueflandi leikskóla og ráðgjöf landlæknisembættisins um hollt og fjölbreytt mataræði.
Garðurinn er hannaður frá grunni með þarfir mismunandi aldurs í huga, yngstu börnin munu hafa aðgang að garði austan megi en útivistarsvæði elstu barnanna er hönnuð vestan megin í garðinum. Viðeigandi leiktæki verða staðsett í garðinum í samræmi við aldur.
Eins og foreldrar leik­skólabarnanna vita býr leik­skólastarfið við þröngar aðstæður á meðan þessi biðtími gengur yfir. En starfsfólkið er samhent um að láta starfið ganga eins vel og hægt er. Í daglegu starfi stýrir það framhjá hindrunum og vinnur með börnunum af umhyggju með jákvæðni og skapandi lausnir að leiðarljósi. Í daglegum samskiptum starfsfólks og foreldra finnur starfsfólkið fyrir stuðningi og skilningi foreldranna um að þrengslin skapi álag bæði á börn og starfsfólk. En það er gott að hugsa til þess að eftir þennan vetur kemur betri tíð með blóm í haga og nýjan leikskóla sem rúmar öll leikskólabörnin okkar.

Ragnhildur Jónsdóttir
fræðslustjóri