Við erum stödd vestur á Snæfellsnesi, í litlum afskekktum bæ sem heitir Laxárbakki, árið er 1943, stríð er enn suður í Evrópu en friður ríkir á Laxárbakka. Það er Þorláksmessa og allt er hvítt af snjó. Litli bærinn hefur allur verið þrifinn og tekið til utangarðs eftir því sem tök hafa verið á, það á allt að vera hreint og fínt á jólunum.
Hérna býr mamma með yngri börnum sínum, þremur litlum, tveimur stelpum og einum strák, þremur stærri strákum og þremur fullorðnum börnum, tveimur strákum og einni stelpu sem eru hennar hægri hönd við búskapinn. Búið er ekki stórt, 4 kýr og eitt naut, 60 kindur og tveir hrútar, 4 hestar og nokkrar hænur og einn hani að ógleymdum kisu og Trygg. Öllu er sinnt af stakri prýði. Mamma er búin að undirbúa jólahaldið með hjálp stóru krakkanna; baka, reykja og elda. Að sunnan eru komin þrjú elstu systkinin, tveir strákar og ein stelpa sem er elst. Þau hafa verið í vinnu fyrir sunnan. Og svo, síðast en ekki síst, er pabbi kominn heim úr vinnunni sinni í Borgarnesi þar sem hann er rafstöðvarstjóri.
Í dag var fátækraþurrkur úti svo mamma og Vina systir höfðu tekið af rúmunum og þvegið og það setti punktinn yfir i-ið, nú var allt orðið hreint og ilmandi í litla bænum á hólnum og við litlu systkinin áttum að fara að sofa svo jólin kæmu fyrr.
Við skriðum uppí rúmin okkar og vorum þæg og góð að hlusta á jólakveðjurnar í útvarpinu þangað til svefninn náði tökum á okkur.
Morguninn eftir vöknuðum við snemma og drifum okkur á fætur, alveg að springa af spenningi. Við vissum af 7, 5 og 3 ára reynslu að við fengjum áreiðanlega einhverja jólapakka, en hvað væri í þeim væri eftir að vita.
Um hádegið þegar búið var að borða vorum við látin setjast upp á eldhúsbekkinn og þar áttum við að sitja þæg og góð þangað til jólin kæmu meðan verið væri að gera það sem eftir var að gera. Og þar sátum við.
Pabbi var búinn að loka sig inni í baðstofunni. Við vissum auðvitað ekkert hvað þar fór fram, það kæmi ekki í ljós fyrr en jólin kæmu klukkan sex og stofudyrnar opnuðust. Stóru krakkarnir voru að sinna skepnunum. Allt átti að vera fínt hjá þeim og nóg að borða, ekki dugði annað. Mamma og stóru stelpurnar voru að hamast við að ljúka verkunum og matreiða. Og litlu krakkarnir sátu góðir og þægir uppi á eldhúsbekknum. Klukkan fimm fóru svo allir í bað eða þvoðu sér vel og fóru í sparifötin sem mamma hafði verið að sauma og prjóna undanfarið.
Og klukkan sex opnuðust svo baðstofudyrnar og þvílík dýrð, búið var að skreyta allt og kveikja á jólatrénu sem stóð á litlu borði með ótal kertaljós og stjörnu á toppnum.
Og nú settust allir niður og sátu eins og brúður að hlusta á jólamessuna í útvarpinu, ekki mátti helst hreyfa sig meðan hún var í gangi. Pabbi sat með tvö kríli á hnjánum sem var mjög eftirsótt sæti hjá okkur litlu krökkunum.
Síðan var sest að borðum og borðaður jólamaturinn góði. Að því loknu kom mamma inn með pakka handa öllum. Ég fékk dúkku sem kom sér vel því sú gamla var ónýt. Þegar búið var að opna pakkana var drukkið súkkulaði og borðaðar kökur sem mamma hafði bakað og allir fengu að vaka til miðnættis og svo var ljósið látið loga jólanóttina, það var alltaf siður.
Þegar fólkið vaknaði á jóladagsmorgun færði mamma öllum súkkulaði og kökur í rúmið, það var alltaf siður á jóladaginn.
Þetta var margmennt heimili, 14 manns, svo það var glaumur og gleði um jólin, spilað og leikið sér, voða gaman. En svo þurfti fólkið sem var í vinnu fyrir sunnan að fara á annan í jólum og þá dofnaði nú svolítið yfir öllu og lá við að okkur leiddist sem eftir vorum heima. En það var hægt að hlakka til áramótanna, þá var hátíð og góður matur. Við gátum séð brennu á næstu bæjum, engin brenna var heima og nú kom fólkið ekki heim sem var í vinnu.
Og svo tók hversdagurinn við og jólin voru búin.
Gróa Ormsdóttir