,,Er Skeiðará nú búin?”

0
2503
Frá byggingu á Skeiðarárbrú 1972-1974. Mynd: Vegagerðin

Úr Vatnadeginum mikla eftir Þórberg Þórðarson

Þann 14. júlí árið 1974 var opnað fyrir umferð yfir Skeiðarárbrú og þar með um hringveginn. Sunnudaginn 14. júlí næstkomandi, verður haldin hátíð við þetta 880 m einstaka minnismerki á Skeiðarársandi í tilefni af 45 ára vígsluafmæli brúarinnar. Þetta verða listviðburðir og víðavangshlaup; Skeiðarár­hlaup & ÖR List.
Skeiðarárbrú var byggð á árunum 1972-1974. Sá atburður breytti landslagi og menningu okkar til frambúðar og er því brúin tákn um miklar samfélagsbreytingar. Helgi Hallgrímsson var verk­fræðingur hjá Vegagerðinni á þessum árum og hannaði og stýrði framkvæmdum á Skeiðarársandi. Markmið manna var að vinna með náttúruöflunum og byggja brú á sandinum sem myndi skemmast sem minnst í flóðum, en óraunhæft var talið að byggja brú sem stæðist flóðin með öllu. Fyrir þennan tíma höfðu menn alla tíð komist leiðar sinnar yfir sandinn sundríðandi yfir árnar eða farið um jökulveg.
Frá miðri síðustu öld voru gerðar ýmsar tilraunir með að komast yfir árnar á vélknúnum ökutækjum.
Þórbergur Þórðarson lýsir í frásögn sinni Vatnadagurinn mikli, för sinni í gegn um Öræfin og yfir Skeiðará, árið 1933. Þar telur hann upp Vatnaboðorð fjögur:

  • Haltu ekki fast í tauminn!
  • Stattu ekki í ístöðunum!
  • Haltu annarri hendi af öllu afli í faxið, ekki í hnakkinn!
  • Horfðu ekki niður í vatnið, heldur skaltu einblína útí sjóndeildarhringinn eða á Lómagnúp!

Skeiðará færði sig yfir í farveg Gíjukvíslar árið 2009 og síðan þá hefur lítil læna, Morsá, runnið undir Skeiðarárbrúna. Árið 2017 var umferð hleypt yfir nýja brú sem smíðuð var yfir Morsá og þar með glataði Skeiðarárbrú hlutverki sínu. Nú stendur hún sem strönduð í tíma við hlið hinnar nýju brúar og minnir okkur á hin síbreytilegu náttúruöfl sem umlykja okkur og við erum partur af.
Sunnudaginn 14.júlí kl. 14:30 verður annarsvegar boðið upp á 3,5 km skemmtiskokk frá minnismerkinu um Skeiðarárhlaupið 1996 sem hentar allri fjölskyldunni. Hlaupið verður til suðurs talsvert frá þjóðveginum. Hins vegar verður boðið upp á 11,5 km hálft hamfarahlaup, en sú vegalengd verður ræst við bílastæðið hjá Háöldukvísl. Hlaupið verður um gamla þjóðveginn á Skeiðarársandi til austurs, yfir þurran farveg Sæluhúsavatns og suður varnargarðinn sem var byggður vegna Skeiðarár á sínum tíma. Báðar vegalengdirnar enda síðan uppá miðri Skeiðarárbrúnni þar sem allir þeir sem ljúka hlaupi fá minjagrip. Frá kl. 15:00 til 17:00 fer ÖR List fram, á og við Skeiðarárbrúna. Þar verða sýnd verk eftir innlenda og erlenda listamenn en meðal þess sem verður á dagskrá verða tónlistargjörningar, sirkusatriði og stuttmynda­syrpa undir brúarsporðinum vestanmegin. Á facebook síðu viðburðarinns má kynna sér þá listamenn sem taka þátt í ár.

Meðlimir í Sirkúslistafélaginu Hringleik verða með loftfimleikainnsetningu hangandi neðan úr Skeiðarárbrú.

Frítt er á alla listviðburðina og skráning í hlaupið er á hlaup.is. Þar er bæði hægt að nálgast skráningarform á íslensku og ensku. Krakkar eru velkomnir að taka þátt í barnadagskrá með foreldrum sínum, sem verður við samkomutjaldið.
Hátíðin er hluti af Menningarminjadögum Evrópu á Íslandi.