Fræðsluferð umhverfis Hornafjarðar til Kaupmannahafnar

0
199

Unga kynslóðin, sú miðaldra og kynslóðin sem er hokin af reynslu og hefur reynt tímana tvenna lagði af stað í langferð til Danmerkur í fræðsluferð í nóvember síðastliðnum. Samsetning hópsins var engin tilviljun. Hópurinn átti að endurspegla breiðan hóp íbúa í sveitarfélaginu Hornafirði svo að reynsla ferðarinnar myndi skila sér sem víðast eftir að heim væri komið. Öll áttum við það þó sameiginlegt að vera áhugafólk um sorpmál, hringrásarhagkerfi og samfélagsþátttöku. En af hverju að fara alla leið til Danmerkur með tilheyrandi ferðakostnaði og umhverfisspori? Við vorum svo sannarlega meðvituð um áhrif langra ferðalaga á heimili okkar hér á jörðu. En heimskur er heima alinn maður segir einhvers staðar. Umhverfis Hornafjörður er verkefni sem fékk styrk úr hringrásarsjóði Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2021. Styrkurinn var m.a. hugsaður til þess að efla grasrótina í umhverfismálum og til að fræða og upplýsa íbúa. Tilgangur ferðarinnar var einmitt að skoða hvort við gætum lært eitthvað af nágrannaþjóð okkar og tekið með okkur þekkingu og hugmyndir heim í hérað. Á þremur dögum náði hópurinn að skoða fjölmargt sem snertir á stóra verkefninu, hringrásarhagkerfinu, og erfitt er að ná utan um allt í þessum skrifum. Það sem helst stendur upp úr er einkum þrennt: Mikilvægi aðgengis þegar kemur að flokkun úrgangs, áhersla Dana á fræðslu um sorpmál og mikilvægi þess að skapa rými fyrir félagslega þátttöku og grasrótarumhverfi. Varðandi aðgengi þegar kemur að flokkun úrgangs, þá var aðal flokkunarstöðin í Kaupmannahöfn, Sydhavn genbrugscenter, til fyrirmyndar. Við innkomu á stöðina er það fyrsta sem tekur á móti notendum hennar möguleikinn á að koma úrganginum (auðlindinni) í endurnýtingu. Þar er staðsett verslun með notaðar vörur, í þessu tilfelli rekin af flokkunarstöðinni, sem í senn var nytjaverslun sem og efnismiðlun. Þegar komið var inn í verslunina mátti sjá frumkvöðla að vinnu, bæði við saumaskap sem og á fullkomnu smíðaverkstæði. Frumkvöðlar geta óskað eftir vinnuaðstöðu gegn því að allur þeirra efniðviður sé úr endurnýttu hráefni sem fellur til á flokkunarstöðinni og eins er gerð krafa um samfélagsviðburð sem íbúum er boðið á, t.d. námskeið eða önnur fræðsla. Með þessu móti er ekki hjá því komist að verða vitni að endurnotkun þegar komið er á flokkunarstöðina. En það er jafnframt fyrsta þrepið í úrgangsþríhyrningnum sem má sjá mynd af hér til hliðar. Hönnun flokkunarstöðvarinnar var með besta móti og aðgengi að öllum úrgangsflokkum sérlega gott og greinilegt að allra síðasti flokkurinn til að koma ruslinu frá sér var “óendurvinnnanlegt” og þar með úrgangur sem fer í urðun eða brennslu. Það er jafnframt síðasta þrepið í fyrrgreindum úrgangsþríhyrningi. Á efri hæð flokkunarstöðvarinnar mátti finna skólastofu þar sem skólarnir koma reglulega með krakkana og fá fræðslu. Danir eru greinilega framarlega í fræðslu um flokkun og umhverfismál til skólabarna. Hópurinn varð vitni að því jafnt í Kaupmannahöfn og á Borgundarhólmi að það var virk fræðsla til barna í grunnskóla og aðstaða á flokkunarstöðum til þess. Öll börn á Borgundarhólmi fara að minnsta kosti tvisvar sinnum á grunnskólagöngu sinni í heimsókn í flokkunarstöðina og fá fræðslu. Við sjáum tækifæri í sveitarfélaginu okkar til þess að veita enn meiri fræðslu um úrgangsmálin til skólabarna og íbúa. Í framtíðarskipulagi ætti að gera ráð fyrir slíkri aðstöðu við flokkunarstöðina. Að lokum viljum hér vekja athygli á samfélagsþátttökunni og mikilvægi hennar, hún skein í gegn víða þar sem hópurinn fór. Við eina hliðargötu á Strikinu í Kaupmannahöfn heimsótti hópurinn eina af samfélagsmiðstöðvum Kaupmannahafnarborgar, Huset, sem einnig hýsir kaffihúsið Bastard Cafe. Þar var að finna mikið magn af spilum sem hægt var að fá afnot af fyrir lítið. Á sama tíma og hópurinn kom þar við var einnig morgunverðar-bingó í gangi. Það var mjög ánægjulegt að sjá samsetningu fólksins á kaffihúsinu, þar var allur aldur og margs konar hópar. Félagsleg tengsl þvert á samfélagshópa skipta máli. Hvernig væri ef Nýheimar væru skilgreind sem samfélagsmiðstöð okkar þar sem rekið væri kaffihús og hægt væri að hittast af og til og spila saman og drekka gott kaffi? Heim til Íslands komum við aftur, full af innblæstri og hugsjón. Allt það sem við skoðuðum í Danmörku á beint erindi í Sveitarfélaginu Hornafirði, verkefni sem ætti að vera lítið mál að aðlaga að minna samfélagi ef vilji er fyrir hendi. Markmiðið er svo skýrt, að efla hringrásarhagkerfið. Upplifun okkar eftir þessa ferð er mikilvægi breiðrar þátttöku í umhverfismálum. Öll vitum við eitthvað og saman vitum við svo miklu meira! Hafir þú áhuga á að fræðast meira um ferð okkar eða taka virkan þátt í Umhverfis Hornafirði, þá endilega kíktu við í föstudagshádegi í Nýheimum, föstudaginn 24. mars kl. 12:00. Minnum einnig á að hægt er að fylgjast með Umhverfis Hornafirði á samfélagsmiðlum.

Anna Ragnars, Elín Ýr, Guðrún Ásdís, Helga Árna, Ingaló og Tómas Nói.