Hvað er svona gott við jóga?

0
1345

Jóga er dregið af yoga á sanskrít og merkir eining eða sameining og má segja að með því að iðka jóga sé verið að vinna heildrænt með manneskjuna.
Ávinningurinn af jógaiðkun er mikill fyrir líkama, tilfinningar og huga.
Í jóga virðum við mörkin okkar og erum ekki í neinni keppni. Í jóga erum við að æfa athyglina í að vera til staðar og safna lífsorku.
Margar tegundir jóga eru til en vesturlandabúar iðka sennilega mest Hatha jóga en orðið Hatha þýðir sól og máni og má segja að með iðkun sé verið að vinna með jafnvægi á milli þessara náttúruafla.
Við vinnum með öndun, gerum stöður og teygjur ásamt því að hugleiða og slaka á en með því myndast jafnvægi í stoðkerfi líkamans, þ.e. í beinum, hreyfivöðvum og liðamótum. Iðkun jóga hefur einnig áhrif á innkirtlakerfið, ónæmiskerfið, taugakerfið, öndunarkerfið og meltingarkerfið. Að auki eflist einbeiting og jafnvægi milli líkama og huga.
Ávinningurinn af jógaiðkun er mikill og þykir bæta lífsgæði á ýmsan hátt en jóga getur, bætt meltingu, létt á verkjum, td. langvinnum verkjum og mígreni, stuðlað að betri svefngæðum, minnkað kvíða og þunglyndi ásamt því að auka styrk og liðleika. Og hver vill ekki betri lífsgæði?
Oft byrjar fólk að stunda jóga eftir erfiðar aðstæður í lífinu og það á einnig við um undirritaða. Eftir áratuga álag, áföll og erfiðleika sagði líkaminn stopp og vildi ekki halda áfram með huganum eða mér! Ég sem sagt keyrði á vegg og í smá tíma sá ég ekki hvernig ég myndi halda áfram eða hvað ég gæti gert. Ég vissi ekki hver ég var, hvað mér fannst gaman eða hvað ég vildi. Eftir að hafa svo prufað allskonar heilsurækt og námskeið stendur jóga iðkunin uppúr og er sú heilsurækt sem hefur hjálpað mér hvað mest í að ná heilsu á ný. Því miður er streita algeng í okkar samfélagi og þykir oft á tíðum kostur, það að hafa brjálað að gera hefur jafnvel talist styrkleikamerki. En þegar við búum við mikið álag í langan tíma þá hefur það neikvæð áhrif á líkamsstarfsemina og veikir okkur. Þegar áföll dynja á fólki þarf oft að harka af sér og halda áfram, bæla niður tilfinningar og upplifanir til að komast í gegnum erfiðleika. Með iðkun jóga og jóga nidra sem er djúpslökun getum við náð því að halda betur jafnvægi þegar erfiðleikar steðja að okkur. Hugleiðsla og djúpslökun eins og jóga nidra hjálpa okkur að sleppa fortíðinni og ímyndaðri framtíð. Undirrituð getur vitnað um eiginleika og jákvæða hluti sem gerast við jógaiðkun en best er fyrir hvern og einn að prufa til að finna áhrifin. Allir geta stundað jóga og jóga er fyrir alla hvort sem þú ert lítill eða stór, liðugur eða stirður, öll kyn, aldna, unga, já fyrir alla sem vilja bæta heilsuna og lífsgæðin.
Yama yogastudio býður upp á fjölbreytta jógatíma á öllum tímum dags svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Byrjendanámskeið eru sniðug til að læra stöðurnar, öndunartæknina og allt hitt í rólegheitum og í litlum hópum. Framhaldsnámskeið eru góð fyrir þá sem vilja auka við þekkinguna og vera jafnframt í lokuðum hóp. Jóga nidra djúpslökun er frábær leið til að endurraða sér og núllstilla. Í boði erum morguntímar fyrir þá sem vilja taka daginn snemma og njóta áhrifanna allan daginn. Hádegistímarnir henta vel þeim sem hafa tækifæri á því að nota matarhléið sitt til endurnæringar. Tímar á kvöldin eru dásamleg leið til að byrja á að róa sig fyrir svefn með yin teygjum og góðri slökun sem bætir svefngæðin.
Í jóga er hver og einn á sínum forsendum og markmiðið er að hlúa að sér og gefa sér tíma í amstri dagsins.
Er ekki kominn tími til að setja sjálfan sig í fyrsta sæti og prufa jóga?

Ragnheiður Rafnsdóttir, hjúkrunarfræðingur og jóga Alliance kennari