Ég er glöð yfir því að einhvers konar svar hefur komið fram við grein minni í Eystrahorni 12. nóvember sl. En ég er ekki eins glöð yfir innihaldi þess svars. Hér er um að ræða grein sem Ásgrímur Ingólfsson ritar í Eystrahorn 19. nóvember sl. Þar setur hann fram þá sýn sem hann hefur á málefnið, fyrirhuguð þétting byggðar í innbæ. Mér finnst innihald greinar Ásgríms vera að skauta fram hjá því sem málið snýst um nú sem áður.
Raunveruleiki er að Golfklúbbur Hornafjarðar sendi frá sér yfirlýsingu þar sem þremur húsum er mótmælt. Framkvæmdinni í heild hefur svo mikill meirihluti íbúa hverfisins mótmælt og um 100 aðrir íbúar sveitarfélagsins. Ég hef rökstutt hvers vegna. Þann rökstuðning má sjá í grein minni sem talað er um hér að ofan, í þessu sambandi má einnig vísa í minnisblað verkfræðings hjá Verkfræðistofunni Eflu þar sem fram kemur að ekkert vit er að fara í þessar framkvæmdir nema að athuguðu máli vegna jarðvegs þessa svæðis.
Það hvort fyrirhugað er að byggja tvö einbýlishús, raðhús eða blokk er ekki málið hvað varðar það tún sem við íbúar hverfisins sjáum fyrir okkur sem útivistarsvæði, það er að við viljum hafa þar útivistarsvæði og höfum rökstutt það vel af hverju, svar Ásgríms er að benda á samanlagða bletti hér og þar á stærð við fótbotavöll og svo á Hrossabitahagann og Þorgeirslund. Ég get engan veginn séð hvernig það svar fellur að ósk okkar. Túnið er fullkomið og við erum að tala um það sem útivistarsvæði það er í hverfinu og útsýnið frá því er fegurð fjalla og jökla. Sé þetta tún eyðilagt er eftir röndin fyrir framan raðhús Vesturbrautar og hóllinn fyrir framan einbýlishúsin tvö sem Ásgrímur vill sjá á túninu. Lítið finnst Ásgrími um niðurstöður íbúakönnunar þar sem íbúar bentu á túnið sem ákjósanlegt svæði til útivistar en raunveruleikinn er samt sá að íbúar bentu á þetta svæði.
Í upphafi þessa máls var sagt að blikur væru á lofti um að lítil eftirspurn yrði eftir lóðum í náinni framtíð. Ég hef bent á og rökstutt vel að þessi fullyrðing stenst ekki skoðun, okkur hefur fjölgað umfram það sem ráð var fyrir gert. Sveitarfélagið Hornafjörður er ein heild og allir íbúar sveitarfélagsins teljast jafngildir. Í grein sinni minnist Ásgrímur svo ekki einu orði á fyrirhugaðar framkvæmdir í Lóni sem fara af stað í náinni framtíð. Þar mun rísa 75 herbergja hótel, 20 einbýlihús og tveir veitingastaðir, spa og gróðurhús til grænmetis og ávaxtaræktunar. Þar verða í boði hestaferðir, gönguferðir og bátsferðir svo eitthvað sé nefnt. Ofantalið mun skapa mörg störf og afleidd störf m.ö.o. þessum framkvæmdum mun fylgja mikill fjöldi fólks. Það er raunveruleiki að brýnt er að fara að skipuleggja stór svæði undir íbúabyggð og um slík svæði er góð sátt meðal íbúa sveitarfélagsins.
Ummæli Ásgríms um heimili okkar í dag vekja furðu mína, við hjónin kaupum sökkla og malarpúða okkar heimilis árið 1988. Þau sem hófu framkvæmdirnar 1982 hættu við, vegna mikils kostnaðar t.d. vegna þess að reka þurfti súlur niður á níu metra dýpi til að komast niður á fast.
Að lóðir hafi verið á aðalskipulagi síðan 2003 og enginn byggt á þeim er vegna þess að þær hafa ekki verið settar inn á deiliskipulag fyrr en nú, þeim hefur ekki verið úthlutað af þeim ástæðum að þær hafa verið taldar svo dýrar í framkvæmd bæði fyrir sveitarfélagið og væntanlega húsbyggjendur. Þetta er raunveruleiki. Það að ætla að setja allan kostnað á væntanlega húsbyggjendur stuðlar að líkindum ekki að jöfnum lífsskilyrðum.
Þeir sem gefa kost á sér og ná kosningu til starfa í stjórnsýslu sveitarfélagsins þurfa að gera sér grein fyrir því að starfið er þjónusta við okkur íbúana og ber að sinna því af nærgætni og auðmýkt. Ég er einn af íbúum sveitarfélagsins og í mínum raunveruleika er aldrei hvað maðurinn er heldur alltaf hver maðurinn er. Allir eru jafnir. Enginn er minni en annar og enginn er meiri en annar hvoru megin sem einstaklingur situr við borðið. Mínar skoðanir og skoðanir mikils meirihluta íbúa hverfisins sem þetta mál varðar, ættu að mínu mati að vega þyngra en málarekstur sem er langtum veikari hvað varðar rök og sannleika.
Við sem erum í forsvari íbúa vegna þessa máls, höfum nú lagt fram ósk um að safna undirskriftum til að mál þetta fari í íbúakosningu. Ég mun virða niðurstöðu þeirrar kosningar og spyr þig Ásgrímur Ingólfsson munt þú gera það ?
Sveinbjörg Jónsdóttir íbúi í innbæ og sveitarfélaginu.