Nýr kirkjuvörður og Stafafellskirkja 150 ára

0
1901

Á vordögum var aðalsafnaðarfundur Hafnarsóknar (Hafnarkirkju og Stafafellskirkju) og kirkjugarðanna í sókninni haldinn. Starfsemi í Hafnarkirkju er umfangsmeiri en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Því er ástæða til að gera safnaðarmeðlimum og íbúum í stuttu máli grein fyrir starfseminni.

Í ársskýrslu formanns kemur fram að kirkjustarfið var með hefðbundnu sniði eins og búast má við. Þó mátti sjá áherslubreytingar í starfinu með nýju fólki.

Þetta var fyrsta heila starfsár séra Gunnars Stígs Reynissonar sem sóknarprests og séra Maríu Rutar Baldursdóttur sem prests, reyndar í hálfu starfi. Þjóna þau jafnframt í hinum fimm sóknum og kirkjum í héraðinu.

Athafnir sem prestarnir sinntu í Hafnarsókn voru um 80 og tæplega 5000 kirkjugestir sóttu þessar athafnir.

Hafnarkirkja er eftirsótt til tónleikahalds og ýmissa viðburða. Skráðir voru 12 slíkir viðburðir sem um 1200 manns sóttu. Þá eru ótaldir fundir og æfingar í kirkjunni.

Það hafði áhrif á starfið að Jörg Söndermann organisti veiktist alvarlega og var frá starfi meiri hluta síðasta árs. Það var því þakkarvert hvernig fyrrverandi organistar Guðlaug Hestnes og Stefán Helgason brugðust við og leystu úr þeim vandkvæðum sem sköpuðust.
Því er ekki að leyna að messusókn hefur farið dvínandi seinni ár. Það er þróun sem hefur átt sér stað víða. Ungu prestarnir okkar eru áhugasamir um starfið og munu gera ýmislegt til að vekja áhuga og hvetja fólk til að mæta í kirkjuna m.a. með fjölbreyttara barnastarfi.
Þrátt fyrir erfið rekstrarskilyrði hefur tekist ,með góðum stuðningi ýmissa aðila, að halda í horfinu hvað varðar afkomu sóknarinnar. Aftur á móti er rekstur kirkjugarðanna kominn í þrot og tímaspursmál hvenær ekki verður hægt að sinna viðunandi umhirðu en tekjur þeirra hafa verið skertar um 40%. Rétt er að undirstrika að kirkjugarðarnir eru sérstakar stofnanir, aðskildir frá kirkjunum.

Nú hefur kirkjuvörðurinn og meðhjálparinn Örn Arnarson, Brói okkar, óskað eftir að láta af störfum 1. september nk.. Hann hefur sinnt starfinu af mikilli trúmennsku og myndarskap í 22 ár, en það kemur maður í manns, eins og þar stendur. Búið er að ráða Sindra Bessason í starfið. Væntum við góðs af samstarfi við hann og bjóðum hann velkominn til starfa hjá sókninni.

Stafafellskirkja verður 150 ára á þessu ári og af því tilefni verður hátíðarmessa í kirkjunni og kaffisamsæti 26. ágúst nk. sem auglýst verður nánar síðar. Það væri sérstaklega ánægjulegt að sjá við þá athöfn þá sem sótt hafa athafnir og notað kirkjuna við ýmis tækifæri gegnum tíðina.

Albert Eymundsson
formaður sóknarnefndar.