Nýjung í samskiptaformi á heilsugæslunni á Hornafirði

0
1470

Heilsuvera.is er vefsvæði þar sem notandi getur átt í samskiptum við heilbrigðisþjónustuna og nálgast gögn sem skráð eru um hann í heilbrigðiskerfið á Íslandi. Heilsugæslan á Hornafirði býður upp á þjónustu í gegnum heilsuveru. Allir einstaklingar hafa aðgang að lyfseðlalista, lyfjaúttektum, bólusetningaupplýsingum og upplýsingum um skráðan heimilislækni eða heilsugæslu. Einnig geta einstaklingar á starfssvæði HSU Hornafirði pantað tíma á heilsugæslustöðinni.
Til að skrá sig inn á Heilsuveru er krafist rafrænna skilríkja. Viðkomandi þarf að vera með SIM-kort (símakort) sem styður rafræn skilríki. Hægt er að kanna hvort símakortið þitt styður rafræn skilríki. Styðji símakortið ekki rafræn skilríki getur fólk orðið sér úti um slík á heimasíðu símafyrirtækja. Virkja þarf skilríkin í viðskiptabanka viðkomandi. Hafi fólk ekki möguleika á rafrænum skilríkjum í símann, eða vill það ekki, er hægt að sækja um einkaskilríki frá Auðkenni.

Eftirfarandi virkni er í boði í Heilsuveru:

  • Lyfseðlar, aðgengilegt yfirlit yfir lyfseðla sem eru í lyfseðlaskrá Landlæknis. Einfalt viðmót til að óska eftir endurnýjun á ákveðnum lyfjum gegnum vefinn án þess að þurfa hringja inn eða koma á heilsugæslu.
  • Bólusetningaskrá, yfirlit yfir bóluefni sem þér hafa verið gefin samkvæmt bólusetningarskrá Sóttvarnalæknis.
  • Tímabókanir, hægt að bóka tíma hjá lækni. Nauðsynlegt er að vera skráður á stöðina til að geta bókað. Tekið skal fram að framboð af vefbókanlegum tímum getur verið misjafnt.
    Líffæragjöf, hægt er að taka afstöðu til líffæragjafar.
  • Senda inn fyrirspurn til læknis.

Sú nýjung hefur verið tekin upp á Hornafirði til að nálgast niðurstöður úr blóðprufum á heilsugæslunni á Höfn. Niðurstöðurnar verða sendar inn í heilsuveruna þína. Það virkar þannig:

  • Þú færð sms um að þú eigir skilaboð í heilsuveru.
  • Þú ferð inn á heilsuvera.is, skráir þig inn með rafrænum skilríkjum.
  • Ef þú ert ekki með rafræn skilríki, kíktu þá inn á skilriki.is
  • Inn á heilsuverunni getur þú skoðað skilaboð frá heilsu­gæslunni.

Heilsuvera er gátt milli þín og heilsugæslunnar, öruggt samskiptaform sem gerir þjónustuna aðgengilegri.

heilsuvera
HSUmerki2c