Samfélagsbankar

0
1290

Það er gríðarleg þörf á því að byggja upp velferðarkerfið á Íslandi. Ætti að vera auðvelt þar sem við erum jafnrík og Norðmenn ef miðað er við höfðatölu. Því miður þegar horft er yfir sviðið er augljóst að sumir eru jafnari en aðrir. Fjórflokknum á Alþingi með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar virðist ómögulegt að jafna kjörin. Þess vegna er það knýjandi að gefa þeim frí.

Dögun ætlar sér að afnema fátækt, koma á lágmarksframfærslu og afnema völd sérhagsmunahópanna enda ekki skrýtið að við séum þögguð niður.

Hugmynd okkar um samfélagsbanka er mjög mikilvæg en oft misskilin. Til að stofna samfélagsbanka þarf meira en nýtt skilti á gamlan einkarekinn banka. Það þarf nýja lagasetningu á Alþingi sem setur samfélgsbankanum reglur og viðmið. Samfélagsbanki starfar í þágu samfélagsins, skilar hagnaðinum til ríkisins og hefur samfélagslegar skyldur. Einkabanki hefur bara skyldur gagnvart hluthöfum sínum sem hafa óseðjandi þörf fyrir gróða.

Ef hagnaður samfélagsbankans rennur til ríkisins þá verða lán til ríkisins í raun án kostnaðar. Auk þess verður hagnaðurinn tekjulind fyrir ríkið. Öflugur samfélagsbanki setur tóninn á markaðnum og á þann hátt stýrir verðlagningu og vöxtum á markaði.  Í Norður Dakóta í Bandaríkjunum er samfélagsbanki og hann er stór og ríkjandi. Hann virkar sem bakhjarl fyrir einkabankana og gerir þeim kleift að bjóða lán á hagstæðæðari kjörum en ella. Samantekið þá virkar stór samfélagsbanki bæði hagstæður fyrir skattgreiðendur og styður samtímis undir einkarekstur fjármálastofnana á svæðinu.

Einkabankarnir hafa skilað mikum hagnaði og hann hefur endað í vösum hluthafanna án þess að bæta velferðarkerfið á Íslandi. Samfélagsbanki mun skila hagnaðaðinum til skattgreiðenda. Það mun gefa ríkinu kost á því að framkvæma meira eða lækka skatta. Dögun telur auðsöfnun fárra meðan aðrir þjást ranga og mun því óhikað stofna samfélagsbanka ef við komumst til valda, fjöldanum til heilla.

Gunnar Skúli Ármannsson, Dögun, stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði.

Frambjóðandi í Suðurkjördæmi.