Við þurfum þína hjálp!

0
1182

Fjóla Einarsdóttir, svæðisfulltrúi Rauða krossins á SuðurlandiRauði krossinn á Hornafirði verður með kynningarbás á félagasamtaka deginum Frístund í Nýheimum laugar­daginn 20. október. Fulltrúar frá Rauða krossinum í Vík og Vestmannaeyjum munu standa vaktina með fulltrúum Rauða krossins á Hornafirði. Starf Rauða krossins verður vel kynnt og tökum við alltaf fagnandi á móti nýjum sjálfboðaliðum.
Verkefni líkt og heima­námsaðstoð, æfingin skapar meistarann (sem er tungumála kaffi), brjótum ísinn – bjóðum heim og heimsóknarvinir er jafnvel eitthvað sem þú lesandi góður hefur áhuga á að taka þátt í eða fá nánari kynningu á. Þess má einnig geta að sérstaklega verður farið í kynningar á mikilvægi neyðarvarna Rauða krossins og mikilvægi þess að Rauði krossinn á Hornafirði sé vel mannaður og tilbúinn þegar á reynir.
Þegar hættuástand skapast vegna náttúruhamfara eða annarra stórslysa fer neyðar­varnarkerfi Rauða krossins í gang. Hlutverk Rauða krossins í almannavörnum ríkisins er fjöldahjálp og félagslegt hjálparstarf sem felst einkum í því að útvega fæði, klæði og húsaskjól og veita upplýsingar til fólks á neyðarstundu. Fjölda­hjálparstöðvar eru opnaðar þegar koma þarf stórum hópum fólks í skjól, svo sem vegna rýminga hverfa eða landsvæða og í kjölfar náttúruhamfara.
Rauði krossinn á Íslandi er hluti af stærstu mannúðar- og hjálparsamtökum heims. Allt starf Rauða krossins miðar að því að bregðast við og aðstoða þar sem neyðin er mest. Það eru sjálfboðaliðar Rauða krossins sem bera hreyfinguna uppi og því viljum við hvetja áhugasama til þess að koma á bás Rauða krossins á félagasamtaka deginum og kynna sér starfið. Við tökum vel á móti ykkur. Þar verður einnig tekið á móti nýskráningum sjálfboðaliða og þeim sjálfboðaliðum sem hafa áhuga á þátttöku í neyðarvörnum boðið á námskeiðið Inngangur að neyðarvörnum sem haldið verður þriðjudaginn 6. nóvember kl. 18-21 í Hafnarskóla á Höfn. Á námskeiðinu verða neyðar­varnir Rauða krossins kynntar, farið vel yfir hvernig opna skal fjöldahjálparstöð, þátttakendur fá kennslu á aðgerðagrunn Rauða krossins og upplýsingar um hvernig boðunargrunnurinn og aðrar bjargir virka. Í lokin verða umræður og tekin stutt æfing í opnun fjöldahjálparstöðvar.
Þeir sem hafa ekki tök á að koma í Nýheima þann 20. október til að kynna sér starfið en hafa áhuga á að taka þátt í starfi Rauða krossins geta; sótt um að vera sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum með því að fara inn á heimasíðu Rauða krossins www.raudikrossinn.is og sótt um að gerast sjálfboðaliði, þeir sem vilja fara í neyðarvarnir geta skráð sig á námskeiðið á heimasíðu Rauða krossins www.raudikrossinn.is undir viðburðir og námskeið. Þeir sem vilja fá nánari upplýsingar um starf Rauða krossins á Hornafirði geta haft samband við Eyrúnu Axelsdóttur, formann Rauða krossins á Hornafirði.

Eyrún Axelsdóttir, formaður Rauða krossins á Hornafirði (formadur.hornafjordur@redcross.is)
Fjóla Einarsdóttir, svæðisfulltrúi Rauða krossins á Suðurlandi
(fjola@redcross.is)