Útskrift hjá fræðslunetinu

0
1221

Þann 29. maí síðastliðinn var útskrift Fræðslunets Suðurlands. Að þessu sinni útskrifuðust 11 nemendur úr Fagnámi í umönnun fatlaðra, þrír fengu afhentar niðurstöður úr raunfærnimati fyrir félagsliða og einn nemandi útskrifaðist sem félagsliði af félagsliðabrú.
Allir þeir sem luku námi sínu þetta vorið hjá Fræðslunetinu eru starfsmenn sveitarfélagsins og var fagnámið liður í endurmenntun heimaþjónustudeildar. Endurmenntun er mikilvæg til að auka faglega vitund og skilning í starfi en ætti einnig að leiða til þess að þjónusta starfsfólks verði framsæknari og metnaðarfyllri. Endurmenntun er mikilvæg fyrir alla – fyrir einstaklinginn, vinnustaðinn, samfélagið og síðast en ekki síst fyrir þjónustuþega. Sveitarfélagið er lánsamt með starfsfólkið sitt sem er opið fyrir því að sækja sér endurmenntun til að verða betri starfskraftar sem verður að teljast mjög dýrmætt.
Það er stór áfangi að ljúka námi og við hjá Fræðslunetinu óskum öllum innilega til hamingju með árangurinn.